Kjöri íþróttamanns ársins 2009 verður lýst í kvöld í hófi á Grand hóteli Reykjavík. Það eru Samtök íþróttafréttamanna, SÍ, sem kjósa íþróttamann ársins og er þetta í 54. sinn sem SÍ stendur fyrir því.
Á aðfangadag var upplýst hvaða íþróttamenn höfnuðu í tíu efstu sætunum í kjörinu að þessu sinni en í kvöld kemur í ljós hver hinna tíu hreppir hnossið að þessu sinni. Alls hlutu 30 íþróttamenn atkvæði í kjörinu að þessu sinni sem 19 félagsmenn í SÍ tóku þátt í.
Nöfn þeirra tíu sem til greina koma eru:
Björgvin Páll Gústavsson, handknattleiksmaður hjá Bittenfeld í Þýskalandi og Kadetten í Sviss.
Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður hjá Barcelona á Spáni og Mónakó í Frakklandi.
Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.
Helena Sverrisdóttir, körfuknattleikskona hjá TCU í Bandaríkjunum.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir, frjálsíþróttakona úr Ármanni.
Hólmfríður Magnúsdóttir, knattspyrnukona hjá
Kristianstad í Svíþjóð.
Jakob Jóhann Sveinsson, sundmaður úr Ægi.
Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður hjá KR, Benetton Treviso á Ítalíu og Granada á Spáni.
Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður hjá Ciudad Real á Spáni og Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.
Þóra Björg Helgadóttir, knattspyrnukona hjá Kolbotn í Noregi.
Fjórir af þessum íþróttamönnum voru einnig á lista yfir tíu efstu í kjörinu í fyrra, Eiður Smári, Guðjón Valur, Jón Arnór og Ólafur. Sá síðastnefndi varð fyrir valinu á síðasta ári.