Mónakó bar sigurorð af Tours í 64-liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var jöfn, 0:0, en Mónakó hafði betur í vítaspyrnukeppni, 4:3. Eiður kom inná á 65. mínútu leiksins í liði Mónakó og skoraði eitt af mörkum liðsins í vítakeppninni sem reyndist sigurmark leiksins.
Eiður hafði ekki verið í leikmannahópi Mónakó í síðustu þremur leikjum liðsins í deildinni en hann skoraði í vikunni eitt af mörkum liðsins í 3:1 sigri á neðri deildarliði í æfingaleik og það fyrsta mark hans fyrir félagið.
Staðan var 3:3 þegar búnar voru þrjár umferðir af vítaspyrnukeppninni. Markvörður Mónakó varði tvær síðustu spyrnur gestanna og Eiður Smári skoraði úr fjórðu spyrnu Mónakó. Það reyndist úrslitamarkið, 4:3.