„Ég reikna með því að verða með sterkasta liðið á Kýpur 3. mars. Þetta er alþjóðlegur dagur og því ekkert því til fyrirstöðu,“ sagði Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, við Morgunblaðið. KSÍ gekk í gær frá samningum við Kýpurbúa um vináttulandsleik á Kýpur, og þar með er ljóst að karlalandsliðið spilar tvo landsleiki í mars.
Þetta verður aðeins þriðja viðureign þjóðanna frá upphafi. Liðin gerðu jafntefli, 1:1, á Kýpur árið 1991 og Ísland vann, 2:1, á Akranesi árið 1996. Kýpur er í 36. sæti af Evrópuþjóðum á heimslista FIFA en Ísland í 40. sæti.
„Ég er mjög þakklátur fyrir að fá þetta verkefni því það er afar erfitt að fá landsleiki á þessum árstíma. Við stefnum síðan að því að spila í lok maí og vonumst eftir því að geta þá leikið við eitthvert þeirra liða sem eru á leið á HM í Suður-Afríku,“ sagði Ólafur.
Færeyingar koma hingað til lands og við þá verður leikið í Kórnum 21. mars. „Í þeim leik tefli ég sennilega bara fram leikmönnum íslenskra liða. Þó gæti verið að einhverjir af yngri leikmönnunum sem eru erlendis væru lausir, og þá væri möguleiki á að gefa þeim tækifæri,“ sagði Ólafur.