Leikmenn landsliðs Tógó segja að þeir ætli að spila í Afríkukeppninni sem hefst í Angóla í kvöld. Í gær var lið þeirra dregið útúr keppninni í kjölfarið á skotárás á rútu þess þegar það var nýkomið yfir til landamæri Angóla. Þrír eru nú látnir eftir árásina og tveir leikmenn eru talsvert særðir.
Thomas Dossevi, leikmaður Tógó, sagði við fréttastofuna AFP að liðsmenn vildu vera um kyrrt í Angóla í minningu þremenninganna sem létu lífið og spila fyrir hönd þjóðar sinnar. Alaixys Romao sagði við franska blaðið L'Equipe að leikmennirnir vildu ekki flýja af hólmi eins og heiglar.
Tógómenn hafa krafið Angólamenn skýringar á skotárásinni sem átti sér stað í héraðinu Cabinda, aðal olíuframleiðslusvæði Angóla, en þar hafa jafnframt verið átök um langt árabil. Frelsishreyfing héraðsins krefst sjálfstæðis og hún hefur lýst árásinni á hendur sér. Angólamenn hafa aftur á móti lýst yfir furðu sinni á þeirri ákvörðun Tógómanna að fara landsleiðina til leiks og láta ekki vita af ferðum sínum.