Knattspyrnulandsliðið mætir Mexíkó

Pétur Pétursson og Ólafur Jóhannesson hafa nóg að gera með …
Pétur Pétursson og Ólafur Jóhannesson hafa nóg að gera með landsliðinu í marsmánuði. mbl.is/Eggert

Íslenska landsliðið í knattspyrnu mætir Mexíkó í vináttulandsleik miðvikudaginn 24. mars. Leikurinn fer fram í Charlotte í Norður-Karólínufylki í Bandaríkjunum og er liður í undirbúningi Mexíkóa fyrir úrslitakeppni HM í Suður-Afríku í sumar.

Þjóðirnar hafa einu sinni mæst áður en þær gerðu jafntefli, 0:0, í San Fransisco í Kaliforníu síðla árs 2003. Mexíkó er í 17. sætinu á heimslista FIFA, í öðru sæti Norður- og Mið-Ameríkuþjóða, á eftir Bandaríkjunum sem eru í 14. sæti.

Þetta verður einn af sex sýningarleikjum sem Mexíkóar spila í Bandaríkjunum frá febrúar og framí maí en þeir leika við Bólivíu, Nýja-Sjáland, Ísland, Ekvador og Senegal ásamt einhverri sjöttu þjóð. Mexíkó leikur opnunarleik HM þann 11. júní, gegn gestgjöfum Suður-Afríku, og mæta einnig Frakklandi og Úrúgvæ í riðlakeppninni.

Þetta verður þriðji landsleikur Íslands í marsmánuði en íslenska landsliðið leikur við Kýpur þann 3. mars, á Kýpur, gegn Færeyingum í Kórnum í Kópavogi 21. mars og svo við Mexíkóa þremur dögum síðar. Tveir síðarnefndu leikirnir eru ekki á alþjóðlegum leikdögum þannig að það verða væntanlega aðallega leikmenn íslenskra félagsliða sem taka þátt í þeim.

Þá hefur verið frágengið að Liechtenstein kemur hingað til lands í vináttulandsleik þann 11. ágúst í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert