Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, var ánægður með ársþing sambandsins þegar Morgunblaðið heyrði í honum hljóðið í gær, en þinginu lauk á laugardaginn.
„Ég myndi segja að það væri góð samstaða í knattspyrnuhreyfingunni að loknu þessu þingi.“ Að áliti Geirs bar hæst þær breytingar sem samþykktar voru á fyrirkomulagi bikarkeppni karla og kvenna. „Það sem ber hæst er kannski það að við gerðum breytingar bæði á bikarkeppni karla og kvenna,“ sagði Geir.
Hvað karlaflokkinn varðar fela breytingarnar í sér að undanúrslitaleikirnir verða ekki leiknir á hlutlausum velli eins og verið hefur undanfarin ár. Einnig var samþykkt að færa bikarúrslitaleik karla framar og fer hann þá væntanlega fram í ágúst eða september, en það hefur þó ekki verið geirneglt ef svo má að orði komast. „Mótastjórinn situr nú uppi með þennan höfuðverk um það hvernig á að raða þessu niður. Það er ekki búið að finna lausn á því,“ sagði Geir og hló.
Hvað konurnar varðar munu úrvalsdeildarliðin hefja keppni í 16 liða úrslitum. „Það voru skiptar skoðanir um þessar breytingar sem hér um ræðir en þó góð samstaða um niðurstöðuna.“
Nánar er fjallað um ársþing KSÍ í Morgunblaðinu í dag.