Töfralæknar leyfðir á HM í fótbolta

Það er oft fjör á leikjum í Suður-Afríku.
Það er oft fjör á leikjum í Suður-Afríku. Reuters

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur heimilað afrískum liðum að vera með töfralæknana sína með sér á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Suður-Afríku í sumar.

Töfralæknarnir gegna þýðingarmiklu hlutverki í undirbúningi margra afrískra liða, og þá fyrst og fremst í hugarfarslegum undirbúningi fyrir leikina. Afrískir leikmenn leita margir hverjir til þeirra til að komast í rétt hugarástand fyrir mikilvæga leiki.

FIFA tilkynnti þessa ákvörðun sína á læknaþingi sínu í Sun City um helgina en þar voru mættir ríflega 300 læknar, sjúkraþjálfarar og aðrir í læknateymi liðanna 32 sem slást um heimsmeistaratitilinn í sumar.

Michel D'Hooghe, formaður læknanefndar FIFA, sagði á blaðamannafundi tengdum þinginu að alþjóðasambandið hefði ekki miklar áhyggjur af afrísku töfralæknunum og þeirra aðferðum. Hinsvegar væri FIFA með mjög strangar reglur hvað varðar meðferð leikmanna, unnið væri náið með læknateymum liðanna og í náinni samvinnu við Alþjóða lyfjaeftirlitið. Það væri því ljóst að töfralæknarnir myndu einvörðungu vinna á andlega sviðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert