Ísland tapaði stórt fyrir Svíum

Katrín Ómarsdóttir, Katrín Jónsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir.
Katrín Ómarsdóttir, Katrín Jónsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir. Carlos Cesar/Algarvephotopress

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætti Svíum í Algarve bikarnum í dag og tapaði stórt 1:5 þrátt fyrir að hafa verið 1:0 yfir í hálfleik. Ísland hefur tapað báðum leikjum sínum í mótinu, fyrir Bandaríkjunum og Svíþjóð.

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði mark Íslands á 16. mínútu.

Fylgst var með gangi mála á mbl.is í textalýsingu.

90. mín: LEIK LOKIÐ. Svíar sigruðu 5:1 og eru því með fjögur stig í mótinu en Ísland ekkert.

85. mín: Staðan er 1:5. Sigurður Ragnar hefur gert þrjár breytingar til viðbótar. Katrín Ómarsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Ólína Viðarsdóttir, fóru af velli en inn komu Dagný Brynjarsdóttir, Elínborg Ingvarsdóttir og Mist Edvardsdóttir. Mist er að leika sinn fyrsta A-landsleik, og þar með hafa allir nýliðarnir í Algarve-hópnum komið við sögu í mótinu.

72. mín 1:5. Svíar bæta enn einu markinu við og hafa nú fjögurra marka forskot. Fimmta mark Svía kom úr vítaspyrnu. Svíþjóð hefur skorað 5 mörk á 25 mínútna kafla eftir að Ísland hélt marki sínu hreinu í fyrri hálfleik. Sigurður Ragnar hefur gert tvær breytingar á íslenska liðinu. Sara Björk Gunnarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir eru farnar af velli og í þeirra stað komu þær Dagný Brynjarsdóttir og Thelma Björk Einarsdóttir. Fyrsti A-landsleikur Thelmu.

69. mín: 1:4. Svíar hafa skorað fjögur mörk í síðari hálfleik og nú er verulega farið að syrta í álinn hjá íslenska liðinu eftir ágætan fyrri hálfleik.

64. mín: 1:3. Svíar bæta þriðja markinu við og hafa skorað þrjú mörk á 17 mínútna kafla.

52. mín: 1:2. Svíar hafa byrjað síðari hálfleikinn með miklum látum og hafa tekið forystuna. Svíar sóttu upp hægri kantinn og gáfu fyrir mark Íslands þar sem sóknarmaður sænska liðsins afgreiddi boltann í netið úr vítateignum.

47.mín: 1:1. Svíar jöfnuðu metin eftir hornspyrnu með skoti úr vítateignum.

46. mín: Staðan er 1:0. Dóra María Lárusdóttir er komin inn á sem varamaður í stað Guðnýjar Bjarkar Óðinsdóttur sem varð fyrir meiðslum í fyrri hálfleik.

45. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland að loknum fyrri hálfleik. Íslenska liðið hefur verið betri aðilinn í leiknum og verðskuldar forystu sína. Helst hefur skapast hætta við íslenska markið þegar Svíar hafa fengið hornspyrnur. Sænska liðið hefur fengið fjórar slíkar en hingað til hefur Íslendingum tekist að verjast þeim þó Svíar séu með marga hávaxna leikmenn. 

37. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Hólmfríður Magnúsdóttir fékk mjög gott marktækifæri vinstra megin í vítateignum. Varnarmenn náðu að þrengja að henni en Hólmfríður náði skoti á markið sem sænski markvörðurinn varði. Besta færi Ísland fyrir utan markið.

30. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Svíar hafa verið hættulegir í föstum leikatriðum en íslenska liðið hefur skapað sér mörg hálffæri.

16. mín: 1:0 Hólmfríður Magnúsdóttir er búin að koma Íslandi yfir. Berglind Björg Þorvaldsdóttir gaf frábæra stungusendingu inn fyrir vörn Svía á Hólmfríði sem lék á varnarmann og renndi knettinum í netið. Frábær byrjun hjá íslenska liðinu gegn ríkjandi meisturum mótsins.

9. mín: Hólmfríður Magnúsdóttir var nálægt því að sleppa í gegn en boltinn barst til Katrínar Ómarsdóttur sem átti gott skot en rétt yfir mark Svía.

4. mín: Svíar fengu gott færi og náðu skalla á markið sem Þóra B. Helgadóttir varði glæsilega.

2. mín: Katrín Ómarsdóttir tók aukaspyrnu við vítateigshorn en skot hennar hafnaði í varnarveggnum. 

Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari hefur gert fjórar breytingar á byrjunarliðinu en hann tilkynnti liðið í gærkvöld.

Þóra B. Helgadóttir kemur í markið í stað Guðbjargar Gunnarsdóttur, Berglind Björg Þorvaldsdóttir er framherji í stað Margrétar Láru Viðarsdóttur, Guðný Björk Óðinsdóttir er fremst á miðjunni í stað Dagnýjar Brynjarsdóttur og Rakel Logadóttir kemur á hægri kantinn í stað Dóru Maríu Lárusdóttur.

Liðið er þannig skipað:

Markvörður: Þóra B. Helgadóttir
Hægri bakvörður: Rakel Hönnudóttir
Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir
Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Sif Atladóttir
Varnartengiliðir: Sara Björk Gunnarsdóttir og Katrín Ómarsdóttir
Hægri kantur: Rakel Logadóttir
Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir
Sóknartengiliður: Guðný Björk Óðinsdóttir
Framherji: Berglind Björg Þorvaldsdóttir

Svíþjóð vann Bandaríkin í vítaspyrnukeppni í úrslitum mótsins í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert