Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari 21-árs karlaliðs Íslands í knattspyrnu, var að vonum ánægður með leikmenn sína þegar mbl.is sló á þráðinn til hans í kvöld. Ísland gerði 2:2 jafntefli við Evrópumeistara Þjóðverja í Magdeburg og á góða möguleika á að komast í umspil um sæti í lokakeppninni árið 2011.
„Við ákváðum bara að vera á svipuðum nótum og í hinum leikjunum. Við spilum 4-3-3 og erum mjög ákveðnir í okkar sóknaraðgerðum. Við sækjum á mörgum mönnum og sýnum þor og ákveðni. Það hefur skilað sér vel fyrir okkur í þessari keppni. Við teflum djarft í öllum leikjum. Við erum með ákveðnar aðferðir varðandi það hvernig við klárum okkar sóknaraðgerðir. Við höfum æft það frá byrjun. Við höfðum bara einn undirbúningsleik og höfðum ekki tíma til þess að fara í mikla vinnu. Við tókum því sóknarleikinn fyrir og reynum að sækja hratt og örugglega úr skyndisóknum. Við einblíndum bara á þennan þátt og það er engin spurning um að það hefur skilað sér,“ sagði Eyjólfur í samtali við mbl.is.
Efstu liðin í riðlunum komast í umspil og fjögur lið sem hafna í 2. sæti. Ísland hefur unnið báða leiki sína gegn San Marínó og N-Írlandi en tapaði heima gegn Tékkum. Liðið leikur heima gegn Þjóðverjum í ágúst og gegn Tékkum ytra í september. Þjóðverjar hafa einnig tapað heima fyrir Tékkum.
Fjallað verður um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.