Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari í knattspyrnu valdi í dag 20 manna hóp fyrir vináttulandsleikina gegn Færeyjum og Mexíkó. Fjórir nýliðar eru í hópnum og aðeins tveir leikmenn hafa spilað meira en 10 landsleiki.
Leikið er við Færeyinga í Kórnum í Kópavogi sunnudaginn 21. mars og við Mexíkóa í Charlotte í Bandaríkjunum miðvikudagskvöldið 24. mars. Þessir leikir eru ekki á alþjóðlegum leikdögum og því eru nær eingöngu leikmenn íslenskra liða með að þessu sinni. Aðeins Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbeinn Sigþórsson koma erlendis frá en þeir leika báðir með AZ Alkmaar í Hollandi.
Bjarni Guðjónsson úr KR er reyndastur með 21 landsleik og Gunnleifur Gunnleifsson markvörður úr FH er næstur með 14 landsleiki.
Nýliðarnir fjórir koma allir úr 21-árs landsliðinu en það eru Kolbeinn Sigþórsson frá AZ Alkmaar, Alfreð Finnbogason úr Breiðabliki, Skúli Jón Friðgeirsson úr KR og Jón Guðni Fjóluson úr Fram. Þeir Kolbeinn, Skúli og Jón Guðni léku allir með 21-árs liðinu gegn Þjóðverjum á þriðjudaginn en Alfreð var varamaður þar.
Alls eru sjö leikmenn úr 21-árs landsliðshópnum í þessum A-landsliðshópi, sem er þannig skipaður:
Markverðir:
Gunnleifur Gunnleifsson, FH (14)
Fjalar Þorgeirsson, Fylki (4)
Varnarmenn:
Valur Fannar Gíslason, Fylki (3)
Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Breiðabliki (2)
Heimir Einarsson, ÍA (1)
Kristinn Jónsson, Breiðabliki (1)
Jón Guðni Fjóluson, Fram (0)
Skúli Jón Friðgeirsson, KR (0)
Miðjumenn:
Bjarni Guðjónsson, KR (21)
Jóhann Berg Guðmundsson, AZ Alkmaar (3)
Baldur Sigurðsson, KR (2)
Matthías Vilhjálmsson, FH (2)
Guðmundur Kristjánsson, Breiðabliki (1)
Gunnar Már Guðmundsson, FH (1)
Óskar Örn Hauksson, KR (1)
Steinþór Freyr Þorsteinsson, Stjörnunni (1)
Sóknarmenn:
Björgólfur Takefusa, KR (3)
Atli Guðnason, FH (1)
Alfreð Finnbogason, Breiðabliki (0)
Kolbeinn Sigþórsson, AZ Alkmaar (0)