Leikmenn Real Madrid eru í sárum eftir fallið í Meistaradeildinni í kvöld en stjörnum prýtt lið Madridinga mátti sætta sig við að falla úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar sjötta árið í röð.
Draumur leikmanna Real Madrid var að komast í úrslitaleikinn hann fer fram á heimavelli liðsins þann 22. maí í vor. Miklu var kostað til hjá liðinu fyrir tímabilið en félagið keypti Kaká og Ronaldo og eyddi 250 milljónum evra í leikmannakaup.
,,Þetta er mikil skömm en það sýndi sig að í mikilvægum leikjum þá vitum við ekki hvernig á að gera út um leiki. Þetta er mikið áfall en nú verðum við að einbeita okkur að deildinni og gera allt sem við getum til að vinna hana,“ sagði Guti eftir leikinn.
,,Við erum allir mjög reiðir og það er erfitt að kyngja þessu. Ég óska eftir því við stuðningsmenn okkar að þeir fyrirgefi okkur en við ætluðum okkur svo sannarlega stóra hluti í keppninni,“ sagði markvörðurinn Iker Casillas.