KR-ingar hafa gert samning við norska markvörðinn Lars Ivar Moldskred og gildir samningur hans við liðið út leiktíðina. Moldskred hefur verið til skoðunar hjá vesturbæjarliðinu síðustu daga og á vef KR í dag er greint frá því að búið sé að semja við hann.
Moldskred er 31 árs og lék lengst með Hödd í 1. og 2. deild en síðan með Molde, Lilleström og síðast með Strömsgodset þar sem hann spilaði 17 leiki í norsku úrvalsdeildinni á síðasta ári.
Norðmaðurinn og Þórður Ingason munu því slást um markvarðarstöðuna hjá KR en Þórður kom til liðsins í vetur frá Fjölnismönnum. Þrír markverðir KR á síðasta ári eru allir farnir frá félaginu til Noregs, Stefán Logi Magnússon og André Hansen til Lilleström og Atli Jónasson til 2. deildarliðsins Våg.