Norski knattspyrnumaðurinn Fredrik Carlsen hjá Aalesund kveðst afar leiður yfir því að hafa valdið Veigari Páli Gunnarssyni meiðslum sem gætu valdið því að hann yrði frá keppni í þrjá mánuði.
Carlsen tæklaði Veigar hressilega í leik Aalesund og Stabæk á dögunum með þeim afleiðingum að liðband rifnaði í ökkla íslenska sóknarmannsins.
„Eg er virkilega leiður yfir því að hann skyldi meiðast og vera lengi frá keppni. Þetta var hörð tækling en ég fór í boltann. Ég vona bara að hann verði fljótur að ná sér. Það er verulega leiðinlegt þegar félagi í fótboltanum slasast, slíkt óskar maður engum," sagði Carlsen við netútgáfu VG í dag, en kveðst ekki vera með slæma samvisku yfir tæklingunni sem slíkri.
Veigar vill ekki kenna Carlsen um hvernig fór. „Ég get ekki kvartað yfir tæklingunni, hann fór í boltann, en af miklum krafti. Yfirleitt er ég góður í því að hoppa uppúr slíkum tæklingum en í þetta skiptið náði ég því ekki," segir Veigar við VG og vonast til þess að endurhæfingartíminn verði eitthvað undir þeim tólf vikum sem talað er um.
Hér má sjá mynd af návíginu og grein VG.