Sölvi: Ég á ekki að kosta 345 milljónir

Sölvi Geir Ottesen á góðu gengi að fagna með SönderjyskE.
Sölvi Geir Ottesen á góðu gengi að fagna með SönderjyskE. mbl.is/Ómar

Sölvi Geir Ottesen, landsliðsmaður í knattspyrnu, segir að 15 milljónir danskra króna, 345 milljónir íslenskra króna, séu alltof hár verðmiði á sér en það er sögð sú upphæð sem danska félagið SönderjyskE vilji fá fyrir hann.

Sölvi hefur átt góðu gengi að fagna með SönderjyskE eftir að hann kom þangað frá Djurgården í Svíþjóð fyrir tveimur árum og hefur verið talinn í hópi bestu varnarmanna í dönsku úrvalsdeildinni. Hann hefur margoft verið orðaður við ensk lið en ekkert hefur gerst frekar í þeim efnum enn sem komið er. Danskir fjölmiðlar segja að SönderjyskE vilji fá minnst 15 milljónir danskra króna fyrir hann en Sölvi á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

„Þetta hefur engin áhrif á mig en það væri spennandi að fara til stærra félags," sagði Sölvi við danska blaðið Metroxpress í dag þegar hann var spurður hvort vangaveltur um sölu á honum hefðu truflandi áhrif.

„Ég veit ekki hvað þeir vilja fá fyrir mig en ef það er virkilega rétt að það séu 15 milljónir, tel ég að það sé alltof há upphæð. Ég er ekki þeirrar upphæðar virði," sagði Sölvi við blaðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert