Vökulir áhorfendur leikja í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu sem sýndir eru á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Sport tóku eftir því að annar leikurinn í síðustu viku var í opinni dagskrá. Þar var ekki um mistök að ræða því í samningum 365 um sýningarétt á Meistaradeildinni er kveðið á um að einn leikur í hverri umferð verði að vera opinn öllum, óháð áskrift.
Samkvæmt upplýsingum frá 365 hefur þetta verið fyrirkomulagið undanfarin ár. Þeir leikir sem sýndir eru í ólæstri dagskrá eru valdir með góðum fyrirvara og af handahófi. Úrslitaleikurinn er svo ávallt óruglaður. Í hádeginu á mánudag ræðst svo hvort leikur Lyon og Bayern München á þriðjudag eða Barcelona og Inter á miðvikudag verður ólæstur.