Evrópumeistarar Barcelona leika ekki til úrslita í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu annað árið í röð heldur kemur það í hlut Inter frá Mílanó að mæta Bayern München í úrslitaleiknum á Santiago Bernabau í Madrid laugardaginn 22. maí.
Barcelona náði aðeins að kreista fram eins marks sigur, 1:0, á Inter í síðari leik liðanna á Camp Nou í Barcelona í kvöld. Inter vann fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum, 3:1, og fer því áfram með markatöluna 3:2, í tveimur leikjum.
Gerard Piqué skoraði eina mark leiksins á 84. mínútu. Lengra komust heimamenn ekki þrátt fyrir að vera nánast í linnulausri sókn allan leikinn. Þeim gekk ekkert að brjóta á bak aftur vel skipulagðan varnarleik Inter sem lék einu manni færra frá 28. mínútu. Þá var Thiago Motta vísað af leikvelli fyrir að slæma hendinni í háls eins leikmanns Barcelona.