Birkir: „Var orðinn hungraður“

Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. mbl.is/Kristinn

Birkir Bjarnason var hetja Viking í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær en þessi 21 árs gamli miðjumaður frá Akureyri skoraði eina mark leiksins þegar Viking lagði granna sína í Haugasundi. 

Markið, sem Birkir skoraði á 44. mínútu, var sérlega glæsilegt en hann tók boltann vel niður í teignum og þrumaði honum í slá og inn. Þetta var annað mark Birkis í jafnmörgum leikjum og hans þriðja á tímabilinu en hann er nýkominn aftur á ferðina eftir að hafa verið frá keppni í rúman mánuð vegna meiðsla en hann varð fyrir því óláni að brjóta bein í olnboga og þá rifnuðu liðbönd í olnboganum.

,,Það er gott og gaman að skora og ekki verra þegar það eru sigurmörk. Ég var orðinn hungraður í að spila eftir að hafa verið frá fimm vikur og ég er bara mjög ánægður með mína frammistöðu á tímabilinu. Það var fúlt að vera meiddur utan vallar en vonandi slepp ég við frekari meiðsli,“ sagði Birkir við Morgunblaðið í gærkvöld.

Hann hefur skorað 3 mörk í þeim fimm deildarleikjum sem hann hefur tekið þátt í og er annar markahæsti leikmaður liðsins en þess má geta að karl faðir hans, Bjarni Sveinbjörnsson, var afar öflugur framherji og skoraði grimmt fyrir Þórsara á Akureyri.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert