Stefán Logi Magnússon markvörður hefur verið að gera góða hluti með Lilleström í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á leiktíðinni og víða í norskum fjölmiðlum verið lofaður í bak og fyrir. Hann er hins vegar ekki í landsliðshópnum sem Ólafur Jóhannesson valdi fyrir æfingaleik gegn Andorra í dag.
Markverðir eru sem fyrri Árni Gautur Arason, leikmaður Odd í Noregi, og Gunnleifur Gunnleifsson hjá FH.
„Auðvitað fór ég vel yfir þá leikmenn sem komu til greina og Stefán Logi hefur staðið sig frábærlega í Noregi. Sem stendur tel ég samt bæði Árna Gaut og Gunnleif vera betri markverði en hann,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is eftir fundinn.