David Villa verður sóknarmaður Spánarmeistara Barcelona á næstu leiktíð en hann kemur til félagsins fyrir 40 milljónir evra, tæplega 6,5 milljarða, frá Valencia. Þetta staðfesti Manuel Llorente forseti Valencia á blaðamannafundi í dag.
Spánverjinn skrifar undir fjögurra ára samning við Barcelona og mun verða kynntur sem nýr leikmaður félagsins á föstudag.
Villa er 28 ára gamall og hefur leikið með Valencia frá árinu 2005. Hann hefur skorað 108 mörk í 164 deildarleikjum fyrir liðið og átti stóran þátt í að það mun leika í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð eftir að hafa endað í 3. sæti spænsku deildarinnar.
Villa er leikmaður spænska landsliðsins og varð markakóngur EM 2008 þegar Spánverjar urðu meistarar. Hann hefur skorað 36 mörk í 55 landsleikjum.
Börsungar voru á höttunum eftir Villa síðastliðið sumar en þá vildi Valencia ekki selja kappann. Llorente sagði við fjölmiðla að það hefði verið gert vegna þess að liðið vildi komast í Meistaradeildina, sem nú hefur tekist.