Mourinho: Líklegra að ég fari frá Inter

Jose Mourinho með Evrópubikarinn.
Jose Mourinho með Evrópubikarinn. Reuters

Skömmu eftir að hafa hampað Evrópumeistaratitlinum með Inter í kvöld sagði þjálfarinn José Mourinho að hann myndi jafnvel yfirgefa liðið. Mourinho komst í sögubækurnar en hann er aðeins þriðji þjálfarinn sem vinnur Evrópumeistaratitilinn með tveimur liðum.

,,Ég vil verða eini þjálfarinn til að vinna Evrópumeistaratitilinn með þremur mismunandi liðum og það er líklegra að ég fari frá Inter en haldi kyrru fyrir,“ sagði Mourinho, sem tók við þjálfun Inter af Roberto Mancini og hefur frá þeim tíma gert liðið að Ítalíumeisturum í tvígang, unnið bikarinn og nú sjálfan Evrópumeistaratitilinn.

Líklegt þykir að Mourinho verði ráðinn þjálfari spænska stórliðsins Real Madrid en hann hefur á undanförnum dögum og vikum verið sterklega orðaður við Madridarliðið.

,,Aðeins Real Madrid hefur sýnt mér áhuga en ég hef ekki rætt við neina og ég hef ekki skrifað undir samningin við neitt lið. Ég hef unnið allt á Ítalíu. Ég hef unnið Evrópumeistaratitilinn með tveimur mismunandi félögum og ég get gert það með þriðja liðinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert