Tíu Leiknismenn skelltu Skagamönnum

Pétur Georg Markan, til hægri, kom Fjölni í 2:0.
Pétur Georg Markan, til hægri, kom Fjölni í 2:0. mbl.is/hag

Leiknir úr Reykjavík vann frækinn sigur á ÍA, 1:0, í 1. deild karla á Leiknisvelli í kvöld, þrátt fyrir að vera manni færri frá 20. mínútu. ÍR er áfram efst í deildinni eftir 0:0 jafntefli við HK í Kópavogi og Fjölnir vann öruggan sigur á Þrótti R. í Grafarvogi, 3:0.

Þetta þýðir að ÍR er með 10 stig á toppnum, Leiknir R. er með 9 stig í 2. sætinu og síðan koma Þór, Víkingur R. og HK með 7 stig hvert.
Staðan í 1. deild.

Staðan í leikjunum:
19.00 Þór - Víkingur R. 4:3 LEIK LOKIÐ Leikskýrsla.
19.00 Njarðvík - KA 1:1 LEIK LOKIÐ Leikskýrsla.
20.00 HK - ÍR 0:0 LEIK LOKIÐ Leikskýrsla.
20.00 Leiknir R. - ÍA 1:0 LEIK LOKIРLeikskýrsla.
20.00 Fjölnir - Þróttur R. 3:0 LEIK LOKIÐ Leikskýrsla.

21.53 Fjölnir - Þróttur R. 3:0. LEIK LOKIÐ. Sannfærandi sigur Fjölnismanna sem höfðu gert þrjú jafntefli og innbyrða nú fyrsta sigurinn í sumar.

21.52 Leiknir R. - ÍA 1:0. LEIK LOKIÐ. Frækinn sigur Leiknismanna sem voru 10 frá 20. mínútu leiksins. Þeir eru í öðru sætinu.

21.49 HK - ÍR 0:0, LEIK LOKIÐ. Markalaust jafntefli í Kópavogi og ÍR heldur þar með efsta sætinu með 10 stig.

21.40. Leiknir R. - ÍA 1:0. Tíu Leiknismenn gera það ekki endasleppt og eru nú verðskuldað yfir gegn ellefu Skagamönnum. Helgi Pétur Jóhannsson skorar með hörkuskalla eftir hornspyrnu á 82. mínútu.

21.37 HK - ÍR 0:0. Skotin hafa dunið á marki ÍR síðustu mínútur. Þorsteinn V. Einarsson hefur náð að verja fjórum sinnum með stuttu millibili, þar af tvisvar frá Aaroni Palomares. Tæpar 10 mínútur eftir.

21.31 Leiknir R. - ÍA 0:0. Tíu Leiknismenn hafa verið líklegri aðilinn gegn Skagamönnum. Rétt áðan var mark dæmt af Ólafi H. Kristjánssyni Leiknismanni, dæmd á hann hendi.

21.23 HK - ÍR 0:0. Guðmundur Steinn Hafsteinsson hefur fengið bestu færi leiksins. Hann komst á 67. mínútu innfyrir vörn ÍR en skaut yfir af markteig.

21.19 Fjölnir - Þróttur R. 3:0. Allt bendir til þess að jafnteflahrinu Fjölnis sé lokið. Guðmundur Karl Guðmundsson hefur skorað þriðja markið á 60. mínútu með glæsilegu skoti utarlega úr vítateignum.

21:08 Seinni hálfleikur er kominn af stað í leikjunum á Kópavogsvelli, Leiknisvelli og Fjölnisvelli. Engin mörk nema í Grafarvoginum þar sem Fjölnir er 2:0 yfir gegn Þrótti.

20.54 Njarðvík - KA 1:1 - lokatölur í Reykjanesbæ. Stórmeistarajafntefli en nýliðar Njarðvíkinga, sem voru yfir lengi vel, fá sitt fyrsta stig í sumar.

20.52 Þór - Víkingur R. 4:3 - lokatölur á Þórsvelli. Víkingar voru yfir þegar uppbótartíminn hófst en Þórsarar skoruðu tvisvar í lokin og tryggðu sér ótrúlegan sigur!

20.51 Þór - Víkingur R. 4:3. Ævintýri á Akureyri. Þórsarar komnir yfir á fimmtu mínútu í uppbótartíma. Jóhann Helgi vippaði boltanum yfir markvörðinn, Nenad Zivanovic fylgdi á eftir, renndi sér og kom honum yfir línuna.

20.50 HK - ÍR 0:0. Flautað til hálfleiks á Kópavogsvelli. HK hefur verið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.

20.48 Þór - Víkingur R. 3:3. Á annarri mínútu í uppbótartíma jafna Þórsarar. Jóhann Helgi Hannesson fær stungusendingu, leikur á tvo varnarmenn og leggur boltann laglega í netið.

20.39 Þór - Víkingur R. 2:3. Víkingar eru komnir yfir á ný á Þórsvellinum. Helgi Sigurðsson lék á varnarmann og sendi fyrir markið þar sem Viktor Örn Guðmundsson skoraði af stuttu færi, á 82. mínútu.

20.37 Hörð barátta á Kópavogsvelli en ekkert um opin færi og staðan enn 0:0 hjá HK og ÍR.

20.33 Njarðvík - KA 1:1. Dean Martin, hinn 38 ára gamli þjálfari KA, hefur jafnað metin á Njarðtaksvellinum með skallamarki á 75. mínútu. Aðeins korter eftir þar.

20.30. Fjölnir - Þróttur R. 2:0. Fjölnismenn eru komnir í vænlega stöðu gegn Þrótturum. Pétur Georg Markan er búinn að bæta við marki á 27. mínútu. Hann slapp innfyrir vörnina, lék á markvörðinn og  skoraði.


20.23 Leiknir R. - ÍA 0:0. Leiknismenn eru orðnir manni færri. Strax á 20. mínútu fékk Óttar B. Guðmundsson sitt annað gula spjald og var þar með rekinn af velli. Erfiðar 70 mínútur framundan hjá Leiknispiltum.

20.12 Fjölnir - Þróttur R. 1:0. Fjölnismenn komast yfir á 9. mínútu. Guðmundur Karl Guðmundsson sendir fyrir mark Þróttar frá vinstri og Aron Jóhannsson skorar með góðum skalla.

20.10 Á Kópavogsvelli hefur HK sótt stíft frá byrjun gegn ÍR.

20.00 Flautað til leiks í þremur síðari leikjum kvöldsins. Það eru HK-ÍR á Kópavogsvelli, Leiknir R. - ÍA á Leiknisvelli og Fjölnir - Þróttur R. á Fjölnisvelli.

19.52 Njarðvík - KA 1:0. Flautað til hálfleiks á Njarðtaksvellinum þar sem heimamenn hafa verið öllu sterkari í fyrri hálfleiknum. Þeir hafa sótt meira en hlutskipti KA-manna hefur frekar verið að verjast.

19.50 Þór - Víkingur R. 2:2. Hálfleikur á Þórsvellinum. Víkingar komust snemma í 2:0 en Þórsarar jöfnuðu metin fyrir hlé.

19.45 Leikskýrslan hjá HK og ÍR er komin á KSÍ-vefinn og hægt að skoða hana hér.

19.40 Þór - Víkingur R. 2:2. Og nú eru Þórsarar búnir að jafna, gott forskot Víkings í byrjun er fokið. Vítaspyrna, Jóhann Helgi Hannesson tók hana en Magnús Þormar varði. Jóhann fylgdi á eftir og skoraði.

19.26 Þór - Víkingur R. 1:2. Þórsarar eru komnir inní leikinn á ný eftir glæsilegt mark Atla Sigurjónssonar. Hann fékk boltann í vítaboganum og smellti honum með vinstri beint uppí markvinkilinn. Snyrtilegt og nú er allt opið á ný á Þórsvellinum.

19.15 Njarðvík - KA 1:0. Njarðvíkingar eru án stiga en eru staðráðnir í að bæta úr því í kvöld. Fyrsta skrefið að því er komið, á 15. mínútu braust Einar Helgi Helgason í gegnum vörn KA-manna, var þá kominn einn gegn Sándor Matus markverði og afgreiddi boltann laglega í bláhornið.

19.10 Þór - Víkingur R. 0:2. Enn vænkast hagur Víkinga á Akureyri. Eftir hornspyrnu að marki Þórsara náðu heimamenn ekki að koma boltanum í burtu. Egill Atlason náði að senda hann í netið af markteig.

19.06 Þór - Víkingur R. 0:1. Víkingar hafa fengið óskabyrjun á Þórsvellinum. Walter Hjaltested skoraði strax á 5. mínútu.

19.00 Flautað til leiks í tveimur fyrstu leikjum kvöldsins, hjá Þór og Víkingi R. á Þórsvellinum á Akureyri og hjá Njarðvík og KA á Njarðtaksvellinum í Reykjanesbæ.

18.58 HK hefur birt byrjunarlið sitt í leiknum gegn ÍR sem hefst á Kópavogsvelli klukkan 20, á heimasíðu sinni. Smellið hér.

18.50 Guðmundur Ragnar Vignisson, 17 ára markvörður úr 2. flokki, ver mark Þórsara í kvöld. Björn Hákon Sveinsson markvörður er meiddur og sama er að segja um markvörð númer tvö hjá félaginu. Þór sótti um undanþágu til KSÍ til að fá markvörð að láni en var synjað um það, eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag. Á Fótbolta.net kemur fram að Þórsarar hafi áfrýjað þeim úrskurði og séu með Gísla Eyland Sveinsson, fyrrum markvörð Tindastóls, í startholunum ef þeir fá undanþáguna.

18.47 Leikskýrslan hjá Njarðvík og KA er komin á KSÍ-vefinn og hægt að skoða hana hér.

18.45 Leikskýrslan hjá Þór og Víkingi er komin á KSÍ-vefinn og hægt að skoða hana hér.

18.42 Mbl.is fylgist jafnóðum með öllu sem gerist í leikjunum í kvöld. Ítarlegast er fylgst með leikjum Þórs og Víkings á Akureyri og leik HK og ÍR í Kópavogi en útsendarar mbl.is á hinum leikjunum upplýsa líka gang mála þar jafnóðum og hlutirnir gerast. Uppfærið (refresh) því þessa frétt reglulega til að sjá það nýjasta.

Staðan eftir þrjár umferðir:

9 ÍR
7 Víkingur R.
6 Leiknir R.
6 Þróttur R.
6 HK
4 Þór
4 KA
3 Fjölnir
3 Fjarðabyggð
1 ÍA
1 Grótta
0 Njarðvík

Staðan í 1. deild karla í heild sinni.

Síðasti leikur 4. umferðar fer fram í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði á morgun þegar Fjarðabyggð tekur á móti Gróttu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert