Skagamenn og Fjölnir komust áfram

Ólafur Karl Finsen úr Stjörnunni sækir að marki Leiknis þar …
Ólafur Karl Finsen úr Stjörnunni sækir að marki Leiknis þar sem fyrirliðinn Halldór K. Halldórsson er til varnar. mbl.is/Ómar

Skagamenn og Fjölnismenn, sem leika í 1. deild, komust í kvöld í 16-liða úrslit VISA-bikars karla í fótbolta með því að sigra úrvalsdeildarlið. ÍA vann Selfoss, 2:1, á Akranesi og Fjölnir lagði Hauka, 2:0, í Hafnarfirði. Annars staðar var mjótt á mununum í bikarleikjum kvöldsins..

Keflavík, Valur og Fylkir lentu öll í vandræðum með mótherja úr 2. deild og 1. deildarliðin Leiknir R. og Þór voru yfir lengi vel gegn Stjörnunni og Grindavík en máttu játa sig sigruð. Þróttur vann Gróttu í viðureign tveggja 1. deildarliða. Það fóru því þrjú lið úr 1. deildinni áfram í kvöld.

Mbl.is fylgdist með gangi allra leikjanna í kvöld:

Úrslitin í leikjunum:
19.15 Leiknir R. - Stjarnan 1:3 LEIK LOKIÐ
(Aron Daníelsson 44. - Halldór Orri Björnsson 73., Daníel Laxdal 77., 90.)
19.15 ÍA - Selfoss 2:1 LEIK LOKIÐ
(Andri Júlíusson 45., Andri Geir Alexandersson 79. - Davíð Birgisson 50.)
19.15 Þróttur R. - Grótta 3:1 LEIK LOKIÐ
(Halldór Hilmisson 37., 80., Andrés Vilhjálmsson 68. - Elvar Freyr Arnþórsson 36.)
19.15 Grindavík - Þór 2:1 Leikskýrslan. LEIK LOKIÐ
(Jósef K. Jósefsson 85., Gilles Ondo 87. - Nenad Zivanovic 5.)
19.15 Víðir - Fylkir 0:2 LEIK LOKIÐ
(Jóhann Þórhallsson 23., Tómas Þorsteinsson 88.)
19.15 Valur - Afturelding 2:1 Leikskýrslan. LEIK LOKIÐ
(Haukur Páll Sigurðsson 28., Viktor Unnar Illugason 85. - Arnór Þrastarson 24.)
19.15 Keflavík - KS/Leiftur 1:0 LEIK LOKIÐ
(Magnús Þórir Matthíasson 63.)
19.15 Haukar - Fjölnir 0:2 Leikskýrslan. LEIK LOKIÐ
(Guðmundur Karl Guðmundsson 16., 79.)
20.00 Breiðablik - FH 0:0 Bein lýsing mbl.is.

21.15 Þar með er þetta búið í kvöld nema á Kópavogsvelli þar sem staðan er enn 0:0 hjá Breiðabliki og FH. Fylgist með hér: Bein lýsing mbl.is.
Við á íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is þökkum annars fyrir í kvöld, ekki síst þeim sem aðstoðuðu okkur við að koma öllum mörkum til skila á mbl.is jafnóðum og þau voru skoruð.

21.10 Þróttur R. - Grótta 3:1, lokatölur. Þróttarar höfðu betur í slag 1. deildarliðanna þar sem Halldór Hilmisson skoraði tvö mörk.

21.09 Keflavík - KS/Leiftur 1:0, lokatölur. Búið á Njarðvíkurvelli þar sem Keflvíkingar mörðu sigur á 2. deildarliði KS/Leifturs.

21.08 Valur - Afturelding 2:1, lokatölur. Erfitt var það hjá Val gegn 2. deildarliðinu úr Mosfellsbæ sem stóð vel uppi í hárinu á Hlíðarendapiltum allan tímann. Ekki að sjá að heil deild væri á milli liðanna.

21.08 Haukar - Fjölnir 0:2, lokatölur. Annað úrvalsdeildarlið fallið úr keppni. Fjölnir vinnur Haukana all örugglega á gervigrasinu á Ásvöllum.

21.08 ÍA - Selfoss 2:1, lokatölur. Fyrsti sigur Skagamanna á tímabilinu staðreynd og þeir fella úrvalsdeildarlið Selfyssinga.

21.06 Víðir - Fylkir 0:2, lokatölur. Fín mótspyrna Víðismanna gegn úrvalsdeildarliðinu og þeir fengu tvö færi til að jafna metin áður en Árbæingar innsigluðu sigurinn undir lokin.

21.03. Grindavík - Þór 2:1, lokatölur. Grindavík sneri blaðinu við, skoraði tvö mörk undir lokin og knúði fram sigur á 1. deildarliðinu.

21.02 Leiknir R. - Stjarnan 1:3 og leik lokið. Fyrirliði Garðbæinga Daníel Laxdal skoraði auðveldlega í tómt mark Leiknismanna eftir skyndisókn á annarri mínútu í uppbótartíma. Leiknir hafði átt hornspyrnu þar sem Eyjólfur markvörður fór fram. Miðja, og svo leik lokið.

20.59 Víðir - Fylkir 0:2. Fylkismenn gera útum leikinn í Garðinum á 88. mínútu þegar Tómas Þorsteinsson skorar beint úr aukaspyrnu gegn 2. deildarliðinu.

20.57. Grindavík - Þór 2:1. Grindvíkingar hafa heldur betur snúið við blaðinu. Skömmu eftir að Þórsarar tóku miðjukomust heimamenn aftur í sókn, Gilles Ondo slapp í gegn og lyfti boltnum yfir markmanninn, á 87. mínútu.

20.56 Valur - Afturelding 2:1. Dæmd vítaspyrna þegar markvörður Aftureldingar fellir Danni König á 85. mínútu. Viktor Unnar Illugason skorar úr  vítaspyrnunni. Valur loksins yfir gegn 2 .deildarliðinu sem hefur verið síst lakara í seinni hálfleik.

20.55 Þróttur R. - Grótta 3:1. Þróttarar að gera útum leikinn. Halldór Hilmisson með sitt annað mark á 80. mínútu.

20.55 Grindavík - Þór 1:1. Grindavík nær að jafna metin, Jósef Kristinn Jósefsson á 85. mínútu. Þetta lá í loftinu.

20.55 Haukar - Fjölnir 0:2. Fjölnismenn stefna í sigur á Ásvöllum. Guðmundur Karl Guðmundsson skorar aftur, nú eftir sendingu Arons Jóhannssonar.

20.52 ÍA - Selfoss 2:1. Aftur er 1. deildarliðið komið yfir gegn úrvalsdeildarliðinu. Andri Geir Alexandersson skorar með þrumuskalla fyrir Skagamenn eftir hornspyrnu á 79. mínútu. Komnir yfir á ný og styttist til leiksloka.

20.49 Flautað til hálfleiks á Kópavogsvelli. Breiðablik - FH 0:0.

20.47 Leiknir R. - Stjarnan 1:2. Garðbæingar eru fljótir að nýta sér liðsmuninn og ná forystunni. Jóhann Laxdal með skot sem er varið, Daníel Laxdal bróðir hans er fljótur að átta sig og skorar með skalla í tómt markið.

20.44 Leiknir R. - Stjarnan 1:1 og rautt spjald. Steinarr Guðmundsson varnarmaður Leiknis fær rauða spjaldið fyrir að brjóta á Jóhanni Laxdal. Vítaspyrna og úr henni jafnar Halldór Orri Björnsson fyrir Garðbæinga.

20.44 Þróttur R. - Grótta 2:1. Þróttarar ná forystunni á 68. mínútu í Laugardalnum. Andrés Vilhjálmsson skorar.

20.42 Skagamenn fá  vítaspyrnu gegn Selfyssingum. Brotið á Andra Júlíussyni að mati dómarans, virtist vafasamur úrskurður. Hjörtur Júlíus Hjartarson, sem lék með Selfossi í fyrra, tekur vítaspyrnuna en skýtur framhjá! Staðan enn 1:1.

20.34 Keflavík - KS/Leiftur 1:0. Keflvíkingar hafa loks brotið ísinn gegn 2. deildarliðinu á 63. mínútu. Eftir sókn upp hægri kant og fyrirgjöf fékk Magnús Þórir Matthíasson boltann, tók hann niður og þrumaði honum í markið.

20.23. ÍA - Selfoss 1:1. Selfyssingar voru fljótir að jafna eftir hlé. Á 50. mínútu áttu þeir hornspyrnu og eftir þvögu í markteignum potaði Davíð Birgisson boltanum í netið.

20.10 Fylkir er sem sagt eina úrvalsdeildarliðið sem er yfir í hálfleik, 1:0 gegn Víði í Garði. Haukar, Selfoss, Grindavík og Stjarnan eru öll að tapa og Valur aðeins með jafntefli gegn Aftureldingu, sem og Keflavík gegn KS/Leiftri. Það verður mikil spenna í seinni hálfleikjunum í kvöld.

20.07 Hálfleikur í Reykjanesbæ þar sem staðan er mjög óvænt, 0:0 hjá toppliði Keflavíkur gegn 2. deildarliði KS/Leifturs. Keflvíkingar hafa sótt talsvert undan sterkum vindi en lítið náð að ógna norðanmönnum. Helst að Andri Steinn Birgisson hafi verið nálægt því að skora úr þremur skotum en þau hafa ekki ratað á markrammann.

20.05 Hálfleikur í Grindavík, heimamenn 0:1 undir gegn Þór eftir mark frá Nenad Zivanovic á 5. mínútu. Grindavík hefur fengið tvö dauðafæri til að jafna, Grétar Ó. Hjartarson var einn gegn opnu marki en hitti það ekki á 24. mínútu og á 43. mínútu skaut Jóhann Helgason í stöng eftir aukaspyrnu.

20.03 ÍA - Selfoss 1:0. Ef svo heldur sem horfir stráfalla úrvalsdeildarliðin úr bikarnum í kvöld! Þegar 25 sekúndur lifðu af fyrri hálfleik slapp Andri Júlíusson innfyrir vörn Selfyssinga, lék á markvörðinn og sendi boltann í tómt markið. Kominn hálfleikur á Akranesi og heimamenn kátir.

20.01 Leikur Breiðabliks og FH er hafinn í Kópavogi. Sjá nánar: Bein lýsing mbl.is.

19.59 Leiknir R. - Stjarnan 1:0. Og enn lendir úrvalsdeildarlið undir í kvöld. Leiknismenn náðu skyndisókn í Breiðholtinu á 44. mínútu, tveir gegn einum Garðbæingi. Kristján Páll Jónsson sendi á Aron Daníelsson sem skoraði. Bara verðskuldað ef eitthvað er en annars hafði nánast ekkert markvert gerst í leiknum fram að þessu.

19.54 Þróttur R. - Grótta 1:1. Sérstök atburðarás í Laugardalnum. Elvar Freyr Arnþórsson skoraði fyrir Gróttu á 36. mínútu en eftir dómarakast þar sem Seltirningar áttu að skila boltanum. Þeir afgreiddu málið heiðarlega og leyfðu Halldóri Hilmissyni að jafna fyrir Þrótt strax eftir miðjuna!

19.52 Það er markalaust á Akranesi eftir 36 mínútna leik hjá ÍA og Selfossi. Skagamenn byrjuðu betur en Selfyssingar komu sterkari inn eftir því sem á leið. Selfoss byrjar með Sævar Þór Gíslason, Ingólf Þórarinsson og Jón Daða Böðvarsson á bekknum í kvöld.

19.43 Valur - Afturelding 1:1. Valsmenn voru fljótir að jafna sig á áfallinu. Haukur Páll Sigurðsson jafnar metin á 28. mínútu með langskoti.

19.41 Valur - Afturelding 0:1. En óvæntustu tíðindi kvöldsins til þessa eiga sér stað á Hlíðarenda. Þar hefur 2. deildarlið Aftureldingar náð forystunni gegn Val. Arnór Þrastarson skorar eftir hornspyrnu á 25. mínútu. Ekki beint samkvæmt gangi leiksins, Viktor Unnar Illugason hafði áður átt tvö skot í tréverkið á marki Mosfellinga.

19.39 Víðir - Fylkir 0:1. Það eru hinsvegar ekki óvænt tíðindi úr Garði þar sem úrvalsdeildarlið Fylkis er komið yfir gegn 2. deildarliði Víðis. Jóhann Þórhallsson nýtti sér varnarmistök heimamanna á 23. mínútu.

19.36 Haukar - Fjölnir 0:1. Fjölnir úr 1. deild hefur komist yfir gegn úrvalsdeildarliði Hauka á gervigrasinu á Ásvöllum. Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði með hörkuskalla á 16. mínútu eftir sendingu Kristins Freys Sigurðssonar frá hægri. Sem sagt, búið að skora í tveimur leikjum og í bæði skiptin 1. deildarlið sem skorar gegn úrvalsdeildarliði á útivelli. Gefur fyrirheit um að eitthvað sögulegt gæti gerst í kvöld.

19.21 Grindavík - Þór 0:1. Þórsarar hófu leikinn í Grindavík með stórsókn gegn úrvalsdeildarliðinu. Það skilaði marki strax á fimmtu mínútu, 0:1. Nenad Zivanovic, fyrrum leikmaður Breiðabliks, var þar að verki.

19.15 Flautað til leiks í leikjunum átta, öllum nema stórleiknum á Kópavogsvelli.

19.13 Þrjú lið úr 2. deild fá að kljást við úrvalsdeildarlið. Afturelding er í heimsókn á Hlíðarenda, KS/Leiftur er á Njarðtaksvelli og glímir við topplið Keflavíkur og í Garðinum fá Víðismenn lið Fylkis í heimsókn. Víðir tók á móti KR í fyrra og tapaði naumlega, 0:2.

19.05 Valsmenn taka á móti 2. deildarliði Aftureldingar og gera nokkrar breytingar á sínu liði. Markaskorarinn Danni König er m.a. á bekknum og í byrjunarliði eru Þórir Guðjónsson, Viktor Unnar Illugason og Sigurbjörn Hreiðarsson, sem hafa ekki byrjað leiki liðsins í úrvalsdeildinni. Leikskýrslan er komin á netið, smellið hér.

19.03 Stórleikur bikarmeistara Breiðabliks og Íslandsmeistara FH hefst klukkan 20. Sérstök textalýsing verður frá honum en staðan verður líka uppfærð hér á meðan hinir leikirnir eru í gangi.

19.00 Það viðrar ekki eins vel í kvöld og undanfarið og útlit fyrir að vindur og jafnvel rok setji mark sitt á einhverja leiki. Allavega í Grindavík þar sem sterkur hliðarvindur mun gera leikmönnum Grindavíkur og Þórs lífið leitt.

18.53 Ljóst er að í það minnsta sex lið utan efstu deildar komast áfram. Fimm fóru áfram í gær, þrjú úr 1. deild og tvö úr 2. deild, og í einum leikja kvöldsins, hjá Þrótti R. og Gróttu, eigast við tvö 1. deildarlið. Í kvöld eru nokkrir leikir á milli liða úr úrvals- og 1. deild sem gætu boðið uppá óvænt úrslit.

18.42 Haukar hafa sett leikskýrsluna úr leik þeirra við Fjölni á KSÍ-vefinn og þar má sjá skipan liðanna. Smellið hér.

18.40 Sjö lið komust í gærkvöld í 16-liða úrslitin en það eru KR, Fram, Víkingur R., Víkingur Ó., Fjarðabyggð, BÍ/Bolungarvík og KA.

Magnús Þórir Matthíasson kom Keflavík yfir gegn KS/Leiftri.
Magnús Þórir Matthíasson kom Keflavík yfir gegn KS/Leiftri. mbl.is/Steinn Vignir
Haukur Páll Sigurðsson jafnaði fyrir Val.
Haukur Páll Sigurðsson jafnaði fyrir Val. mbl.is/Golli
Þórsarar komust yfir snemma í Grindavík þegar Nenad Zivanovic skoraði.
Þórsarar komust yfir snemma í Grindavík þegar Nenad Zivanovic skoraði. mbl.is/Skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert