ÍR á toppnum eftir stórsigur á Fjarðabyggð

Guðlaugur Baldursson, þjálfari ÍR, er með sitt lið á toppi …
Guðlaugur Baldursson, þjálfari ÍR, er með sitt lið á toppi 1. deildar eftir 5 leiki. mbl.is/Árni

Þrír leikir fara fram í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. KA og HK mætast á Akureyri, Víkingur og Njarðvík í Víkinni og í Breiðholtinu eigast við ÍR og Fjarðabyggð. Fyrri tveir leikirnir hófust klukkan 14 en leiknum í Breiðholtinu seinkaði og hófst 14:40. Fylgst er með gangi mála hér á mbl.is.

KA - HK 3:3 - LEIK LOKIÐ
David Disztl  1, Hallgrímur Mar Steingrímsson 60, 90. - Guðmundur Steinn Hafsteinsson 27, Aaron Palomares 50, Hólmbert Aron Friðjónsson 86.

Víkingur - Njarðvík 1:0 - LEIK LOKIÐ
Daníel Hjaltason 64.

ÍR - Fjarðabyggð 4:1 - LEIK LOKIÐ
Guðjón Gunnarsson 30., Davíð Már Stefánsson 47, Árni Freyr Guðnason 58., 71. - Hilmar Freyr Bjartþórsson 21.

16:35 Leik ÍR og Fjarðarbyggðar er lokið með 4:1 sigri ÍR. Leikmenn Fjarðabyggðar áttu eitthvað vantalað við dómara leiksins eftir að flautað var til leiksloka. Þeim samskiptum lauk með því að rautt spjald fór á loft og var það líklega Grétar Örn Ómarsson leikmaður Fjarðabyggðar sem fékk spjaldið. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins bættust við fleiri rauð spjöld þegar þjálfari og leikmenn Fjarðabyggðar eltu dómarann inn í búningsklefa samkvæmt heimildum mbl.is. 

16:12 ÍR - Fjarðabyggð 4:1. Árni Freyr Guðnason er ekki hættur og var að skora fjórða mark ÍR og annað mark sitt í leiknum á 71. mínútu.

15:58 ÍR - Fjarðabyggð 3:1. Framherjinn snjalli Árni Freyr Guðnason hefur bætt við þriðja marki ÍR á 58. mínútu. Gott gengi ÍR-ingar virðist ætla að halda áfram.

15:55. Flautað hefur verið til leiksloka bæði á Akureyri og í Víkinni. Rúmur hálftími er hins vegar enn eftir af leik ÍR og Fjarðabyggðar.

15:47 KA - HK 3:3 KA-menn lögðu ekki árar í bát og jöfnuðu þegar ein mínúta var liðin af uppbótartímanum. Þar var á ferðinni Hallgrímur Mar með sitt annað mark í leiknum eftir þunga sókn. 

15:45. ÍR - Fjarðabyggð 2:1 ÍR-ingar hafa snúið leiknum sér í hag og tóku forystuna í upphafi síðari hálfleik. Davíð Már Stefánsson skoraði á 47. mínútu með skoti utarlega úr vítateignum.

15:43 KA - HK 2:3. Mikil dramatík á Akureyri. Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði með skalla eftir hornspyrnu á 86. mínútu og kom HK í 3:2. Hólmbert er ungur að árum, fæddur 1993.

15:30 Víkingur - Njarðvík 1:0. Daníel Hjaltason er búinn að koma Víkingum yfir í Víkinni. Heimamenn hafa fengið fjölmörg dauðafæri í leiknum en það tók tíma hjá þeim að finna leiðina í mark Njarðvíkinga.

15:16 KA - HK 2:2 Fjörið er mikið á Þórsvellinum á Akureyri hjá KA og HK. Hallgrímur Mar Steingrímsson er búinn að jafna leikinn fyrir KA á 60. mínútu. Opinn leikur fyrir norðan og síðasti hálftíminn verður væntanlega mjög skemmtilegur. 

15:10 ÍR - Fjarðabyggð 1:1. Austfirðingar voru ekki lengi í paradís. ÍR-ingar jöfnuðu á 30. mínútu. Þar var að verki Guðjón Gunnarsson sem skoti frá vítateigslínu eftir að Árni Freyr Guðnason lagði boltann fyrir hann.

15:07 KA - HK 1:2. Kópavogsbúar eru ekki af baki dottnir og hafa tekið forystuna í Eyjafirðinum þrátt fyrir hræðilega byrjun þeirra í leiknum. Aaron Palmomares refsaði KA-mönnum fyrir vandræðagang í vörninni og skoraði með skoti úr teignum.

15:03 ÍR - Fjarðabyggð 0:1 Austfirðingar eru komnir yfir í Breiðholtinu. Hilmar Freyr Bjartþórsson slapp inn í teiginn vinstra meginn og smellti boltanum í fjærhornið á 21. mínútu. 

14:48 Flautað hefur verið til leikhlés í leikjunum tveimur sem hófust klukkan 14. Staðan er jöfn í báðum leikjunum.

14:41 Leikur ÍR og Fjarðabyggðar er hafinn en á því hefur orðið fjörtíu mínútna seinkun.

14:29 KA - HK 1:1. Guðmundur Steinn Hafsteinsson hefur jafnað leikinn fyrir HK með skallamarki. Leikurinn er fjörugur og skemmtilegur. 

14:02 KA - HK 1:0. Það tók David Disztl ekki nema 42 sekúndur að koma KA yfir gegn HK. Dean Martin sendi boltann fyrir utan af hægri kanti og Disztl skallaði knöttinn í netið. 

14:01 Leikirnir eru hafnir á Akureyri og í Víkinni. Leik ÍR og Fjarðabyggðar seinkaði hins vegar um hálftíma vegna röskunar á flugsamgöngum.

David Disztl var ekki lengi að koma KA-mönnum á bragðið.
David Disztl var ekki lengi að koma KA-mönnum á bragðið. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert