Leiknir á toppinn - Fyrsti sigur Skagamanna

Hörð barátta í leik Leiknis R. og Gróttu í kvöld.
Hörð barátta í leik Leiknis R. og Gróttu í kvöld. mbl.is/Eggert

Leiknismenn tóku í kvöld forystuna í 1. deild karla í knattspyrnu þegar þeir lögðu Gróttu, 2:1, á meðan Fjölnir vann stórsigur á ÍR, 4:0. Leiknir er því með 15 stig og ÍR 13 í tveimur efstu sætunum. Skagamenn unnu fyrsta sigurinn, 1:0 gegn Víkingi á útivelli, og Njarðvík vann líka sinn fyrsta leik, lagði HK, 2:0.

Þór sigraði Þrótt R. á Akureyri, 2:1, og Fjarðabyggð lagði KA á Eskifjarðarvelli, 1:0. Fylgst var með gangi mála í öllum leikjunum hér á mbl.is:

Staðan í leikjunum:

19.00 Þór - Þróttur R. 2:1 LEIK LOKIÐ
20.00 Víkingur R. - ÍA 0:1 LEIK LOKIÐ
20.00 Leiknir R. - Grótta 2:1 LEIK LOKIÐ
20.00 Njarðvík - HK 2:0 LEIK LOKIÐ
20.00 Fjarðabyggð - KA 1:0 LEIK LOKIÐ
20.00 Fjölnir - ÍR 4:0 LEIK LOKIÐ

21.57 Fjarðabyggð - KA 1:0, leik lokið. Austfirðingar ná öllum þremur stigunum og enn var Aron Már Smárason þeim dýrmætur.

21.55 Fjölnir - ÍR 4:0, leik lokið. Fjölnismenn vinna stórsigur og skjóta ÍR-inga af toppnum. Aron Jóhannsson innsiglar sigurinn í uppbótartíma þegar hann skorar sitt annað mark eftir stungusendingu frá Guðmundi Karli Guðmundssyni.

21.51 Leiknir R. - Grótta 2:1, leik lokið. Þó Leiknismenn væru 10 á lokamínútunum hirtu þeir stigin þrjú gegn Gróttu. Þar með er ljóst að þeir eru á toppi deildarinnar eftir sex umferðir með 15 stig. Fimm sigurleikir hjá Breiðhyltingum.

21.50 Víkingur R. - ÍA 0:1, leik lokið. Skagamenn fagna ógurlega í Víkinni. Þeir hafa innbyrt fyrsta sigurinn á tímabilinu.

21.50 Njarðvík - HK 2:0, leik lokið. Fyrsti sigur nýliðanna úr Njarðvík er í höfn.

21.48 Víkingur R. - ÍA 0:1. Skagamenn ná að skora á fyrstu mínútu í uppbótartíma í Víkinni. Ragnar Leósson af stuttu færi, og hann virðist vera að tryggja ÍA fyrsta sigurinn á tímabilinu.

21.46. Njarðvík - HK 2:0. Nýliðar Njarðvíkur eru að landa fyrsta sigrinum. Þeir eru komnir í 2:0, eftir talsverðan sóknarþunga HK nær Njarðvík skyndisókn á 89. mínútu, Ólafur Jón Jónsson brunar frá miðju og uppað marki HK og skorar af öryggi.

21.45 Leiknismenn eru orðnir manni færri gegn Gróttu. Fannar Þór Arnarsson fær sitt annað gula spjald og þar með það rauða.

21.41 Leiknir R. - Grótta 2:1. Leiknismenn ná forystunni og ef þetta verða lokatölur ná þeir forystunni í deildinni. Kristján Páll Jónsson skorar á 84. mínútu eftir fyrirgjöf frá Helga Pétri Jóhannssyni.

21.35 Fjarðabyggð - KA 1:0. Austfirðingar eru komnir yfir á 77. mínútu á Eskifirði. Aron Már Smárason fær sendingu innfyrir vörn KA og skorar af öryggi, einn gegn markmanninum.

21.23 Leiknir R. - Grótta 1:1. Þung sókn Leiknismanna ber loks árangur á 67. mínútu. Helgi Pétur Jóhannsson, sem skoraði mörkin í sigurleikjunum við Þrótt og ÍA, er enn á ferð og skorar með skalla eftir fyrirgjöf.

21.15 Njarðvík - HK 1:0. Botnlið Njarðvíkur hefur náð forystunni gegn HK í Reykjanesbæ. Ísak Örn Þórðarson skorar markið á 58. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri. Jafn baráttuleikur þar sem heimamenn eru grimmari.

21.15 Fjölnir - ÍR 3:0. Fjölnismenn komnir í góða stöðu eftir þriðja markið á 54. mínútu. Guðmundur Karl Guðmundsson sendir fyrir frá endamörkum hægra megin og Aron Jóhannsson er ekki í vandræðum með að skila boltanum í markið úr markteignum.

21.04 Leiknir R. - Grótta 0:1 í hálfleik. Síðari hálfleikur var að hefjast á Leiknisvelli þar sem Grótta skoraði snemma leiks og hefur leikið sterkan varnarleik síðan. Fannar Þór Arnarsson var næstur því að skora fyrir Leikni þegar hann skaut í þverslá. Seinni hálfleikur hófst svo á því að Aron Daníelsson komst einn gegn markverði Gróttu en skaut í stöng.

20.54 Þór - Þróttur R. 2:1, lokatölur. Þórsarar voru ekki í teljandi vandræðum með að halda forystunni gegn níu Þrótturum síðustu 20 mínútur leiksins. Þeir eru komnir með 11 stig en Þróttur situr eftir með 6 stig og þrjá tapleiki í röð.

20.51 Fjölnir - ÍR 2:0 í hálfleik. Litlu munaði að ÍR minnkaði muninn á 43. mínútu þegar Jón Gísli Ström átti hörkuskot í þverslá Fjölnismarksins.

20.47 Njarðvík - HK 0:0 í hálfleik. Ingvar Jónsson markvörður Njarðvíkur varði mjög vel frá Hólmbert Aroni Friðjónssyni HK-ingi á lokamínútu hálfleiksins. Annars lítið um færi í leiknum.

20.47 Víkingur R. - ÍA 0:0 í hálfleik. Líflegur leikur í Víkinni og mikið af færum á báða bóga. Ekkert mark, en staðan gæti eins verið 3:3.

20.42 Fjölnir - ÍR 2:0. Fjölnismenn auka forskotið og aftur er Viðar Guðjónsson á ferð. Eftir langa kýlingu útúr vörn Fjölnis missir varnarmaður ÍR boltann á klaufalegan hátt, Viðar er þar með sloppinn einn gegn markverði og skorar örugglega.

20.39 Staðan er markalaust í Njarðvík þar sem HK er í heimsókn. Liðin fengu sitt færið hvort snemma leiks en síðan hefur ekkert markvert gerst. Tæpar 40 mínútur liðnar.

20.32 Þór - Þróttur R. 2:1. Þórsarar komnir yfir gegn níu Þrótturum. Kristján Steinn Magnússon, nýkominn inná sem varamaður, skorar markið.

20.31 Fjölnir - ÍR 1:0. Fjölnismenn ná forystunni gegn toppliði ÍR. Einar Markús Einarsson sendir fyrir mark ÍR frá vinstri og í miðjum vítateig er Viðar Guðjónsson mættur og skorar með laglegum skalla niður í markhornið.

20.24 Rúmar 20 mínútur búnar hjá Fjölni og ÍR í Grafarvogi og staðan er 0:0. Davíð Már Stefánsson ÍR-ingur fékk dauðafæri á 6. mínútu en Hrafn Davíðsson varði í marki Fjölnis. Annars er leikurinn fjörugur og bæði lið sækja hratt þegar kostur er á.

20.22 Rautt spjald, aftur á Þórsvellinum, og aftur er Þróttari rekinn af velli. Á 68. mínútu fær Helgi Pétur Magnússon rauða spjaldið fyrir harða tæklingu. Þróttarar eru þá bara 9 gegn 11 Þórsurum og rúmar 20 mínútur eftir. Staðan enn 1:1.

20.16 Rautt spjald á Þórsvellinum. Þróttarar orðnir manni færri. Erlingur Jack Guðmundsson fær sitt annað gula spjald og hefur þar með lokið keppni í kvöld. Liðnar 60 mínútur.

20.12 Áfall fyrir KA-menn á Eskifirði. Dean Martin, þjálfari þeirra og lykilmaður, fer meiddur af velli eftir aðeins fjögurra mínútna leik.

20.11 Þór - Þróttur R. 1:1. Þórsarar jafna á 54. mínútu. Dæmd vítaspyrna á Þrótt eftir brot á Gísla Páli Helgasyni og úr henni jafnar Aleksandar Linta, bakvörðurinn reyndi, 1:1.

20.10 Leiknir R. - Grótta 0:1. Nýliðar Gróttu hafa náð forystunni gegn Leikni. Magnús B. Gíslason skorar á 9. mínútu eftir fyrirgjöf.

20.00 Flautað til leiks í fimm leikjum í deildinni, í Víkinni, Efra-Breiðholti, Njarðvík, Grafarvogi og á Eskifirði. Á Akureyri er hinsvegar seinni hálfleikur að hefjast en þar hófst viðureign Þórs og Þróttar R. klukkan 19. Mbl.is er með tengiliði á öllum völlum og fréttir af leikjunum verða uppfærðar jafnóðum.

19.49 Þór - Þróttur R. 0:1. Flautað til hálfleiks á Þórsvellinum eftir nokkrar tafir vegna meiðsla.

19.44 Leiknismenn hafa sett á netið leikskýrsluna fyrir leik þeirra  gegn Gróttu og þar má sjá hvernig liðin eru skipuð. Smellið hér.

19.40 Þórsarar hafa sótti lengst af gegn Þrótturum, sem aftur á móti hafa varist skynsamlega og átt hættulegar skyndisóknir inná milli. Þróttarar eru því áfram yfir, 1:0, eftir mark Helga Péturs á fyrstu mínútu.

19.28 Njarðvíkingar hafa sett á netið leikskýrsluna fyrir leik þeirra við HK og þar má sjá liðsskipan liðanna í kvöld. Smellið hér.

19.02 Þór - Þróttur 0:1. Óskabyrjun Þróttara sem komast yfir strax á 1. mínútu leiksins. Helgi Pétur Magnússon, varnarjaxlinn frá Akranesi, skorar markið. Hans fyrsta mark fyrir Þrótt í deildakeppninni og kærkomið fyrir Reykjavíkurliðið sem tapaði 0:2 fyrir Leikni R. og 0:3 fyrir Fjölni í síðustu tveimur leikjum sínum.

19.00 Flautað til leiks hjá Þór og Þrótti á Akureyri.

18.45 Þórsarar hafa sett leikskýrsluna úr leiknum við Þrótt á netið og skoða má liðsskipan liðanna hér.

Staðan fyrir leiki kvöldsins:

13 ÍR
12 Leiknir R.
10 Víkingur R.
  9 Fjölnir
  8 Þór
  8 HK
  6 KA
  6 Þróttur R.
  4 Grótta
  3 Fjarðabyggð
  2 ÍA
  1 Njarðvík

Helgi Pétur Magnússon kom Þrótti yfir á fyrstu mínútu gegn …
Helgi Pétur Magnússon kom Þrótti yfir á fyrstu mínútu gegn Þór. Hann fékk síðan rauða spjaldið á 68. mínútu. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert