Veigar Páll Gunnarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði þrennu fyrir Stabæk gegn Molde í leik liðanna í norsku úrvalsdeildinni í dag en honum lauk með sigri Stabæk, 4:3.
Veigar Páll kom Stabæk yfir á 13. mínútu úr vítaspyrnu, 1:0, en Molde var aðeins þrjár mínútur að jafna metin í 1:1. Veigar var hinsvegar aftur á ferðinni á 20. mínútu og kom þá Stabæk í 2:1, eftir sendingu frá Bjarna Ólafi Eiríkssyni.
Veigar Páll bætti síðan við marki úr annarri vítaspyrnu á 61. mínútu, 3:1, og tveimur mínútum síðar skoraði félagi hans, Espen Hoff, eftir sendingu frá Veigari, þannig að staðan var 4:1.
Á lokakafla leiksins skoraði Molde tvisvar, minnkaði muninn í 4:3, og var nærri því að jafna metin í uppbótartíma.
Veigar og Bjarni léku allan leikinn með Stabæk og Pálmi Rafn Pálmason kom inná sem varamaður á 59. mínútu.