Landsliðsmarkvörðurinn Árni Gautur Arason fær ekki nýjan samning hjá félagi sínu Odd Grenland en núgildandi samningur hans rennur út þegar yfirstandandi leiktíð í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu lýkur. Þetta er fullyrt á norska vefnum varden.no.
Odd samdi nýlega við André Hansen, fyrrverandi markvörð KR, og mun varamarkvörðurinn Andreas Lie fá nýjan samning til að vera Hansen til halds og trausts að því er fullyrt er á síðunni. Árni Gautur, sem er 35 ára, er hissa á þessum fregnum.
„Ég er að sjálfsögðu mjög undrandi, en hvorki bitur né súr. Ég skil að það þurfi að spara peninga og svona er víst fótboltinn,“ sagði Árni en hinir markverðirnir tveir munu samtals fá sömu laun og Árni er með núna.