„Við höfum nálgast ágætar upplýsingar um lið Karpaty Lviv þannig að við vitum að minnsta kosti hvar hver leikmaður spilar á vellinum og hvað hann heitir. Einnig höfum við upptöku af hluta af fyrsta leik liðsins í úkraínsku deildinni um síðustu helgi þar sem við sjáum vel hvernig þeir skipuleggja sinn leik,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari KR, spurður um væntanlega mótherja liðsins Karpaty Lviv í annarri umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu. KR-inga taka á móti Úkraínumönnunum á heimavelli í kvöld kl. 19.15.
„Við þekkjum aðeins hvernig liðið skipuleggur sóknarleik sinn og hvar hugsanlega gætu verið göt í varnarleik þess. Þá var áberandi í þeim leik sem við sáum með liðinu um síðustu helgi hversu fljótir leikmenn liðsins eru að fara fram völlinn í snöggum upphlaupum.
En þetta er án alls vafa mjög gott fótboltalið eins og má reikna með frá þessu svæði Evrópu. Þar ríkir sterk hefð fyrir góðum fótbolta,“ segir Logi.
Nánar er rætt við Loga og fjallað um þátttöku íslensku liðanna í Evrópumótunum í knattspyrnu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.