Veigar Páll Gunnarsson skoraði annað marka Stabæk sem gerði jafntefli, 2:2, við Dnepr Mogilev frá Hvíta-Rússlandi í forkeppni Evrópudeildar UEFA í fótbolta í kvöld. Veigari mistókst hinsvegar að skora úr tveimur vítaspyrnum í leiknum.
Fjörið byrjaði á 52. mínútu þegar markvörður Dnepr varði vítaspyrnu Veigars. Hann var fljótur að svara fyrir sig og skoraði mínútu síðar, og jafnaði þá metin í 2:2.
Á 63. mínútu fékk Stabæk aðra vítaspyrnu og aftur steig Veigar Páll fram. Í þetta skiptið skaut hann himinhátt yfir mark Dnepr!
Ekkert gerðist frekar þráttfyrir þunga sókn Stabæk og liðið mátti sætta sig við jafntefli á heimavelli. Veigar Páll og Bjarni Ólafur Eiríksson léku allan leikinn en Pálmi Rafn Pálmason sat á varamannabekk Stabæk allan tímann.