Breiðablik vann annan stórsigur

Blikum gengur vel í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Blikum gengur vel í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. mbl.is/Golli

Breiðablik leikur nokkurs konar úrslitaleik við franska liðið Juvisy á þriðjudag um að komast áfram í 32-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu, eftir að hafa unnið 7:0 sigur á Targu Mures í kvöld. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Í leiknum á þriðjudag, sem hefst kl. 4 á Kópavogsvelli, mun Juvisy hins vegar duga jafntefli því franska liðið er samtals með tveimur mörkum betri markatölu.

Blikar hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk í dag en létu sjö duga, eftir að hafa unnið 8:1 sigur á Levadia Tallinn á fimmtudaginn. Markaskorara og leiklýsingu má lesa hér að neðan:

Breiðablik - Targu Mures, 7:0
Sjálfsmark 4., Sara Björk Gunnarsdóttir 16., 70., Harpa Þorsteinsdóttir 39., Berglind Björg Þorvaldsdóttir 59., Hlín Gunnlaugsdóttir 64. (víti)., Jóna Kristín Hauksdóttir 72.

19:26 MARK! Mörkin koma hratt þessa stundina hjá Blikum. Varamaðurinn Jóna Kristín var að skora með góðum skalla í þverslá og inn eftir aukaspyrnu Söndru Sifjar af hægri kantinum. Staðan 7:0!

19:23 MARK! Sara Björk slapp ein í gegnum vörn Targu og skoraði af öryggi framhjá markverðinum, og kom Blikum í 6:0.

19:17 MARK! Brotið var á Hörpu Þorsteinsdóttur innan vítateigs. Hlín Gunnlaugsdóttir tók spyrnuna og skoraði af öryggi. Staðan því 5:0 og útlitið gott hjá Blikum.

19:13 MARK! Sara Björk sendi fullkomna fyrirgjöf fyrir markið frá vinstri og þar var Berglind Björg mætt til að koma boltanum í markið og auka muninn í 4:0.

19:08 Blikar fengu vítaspyrnu á 55. mínútu þegar markvörður Targu felldi Söru Björk. Markvörðurinn fékk gult spjald sem verður að teljast skrýtið því rautt spjald hefði verið frekar við hæfi. Fanndís Friðriksdóttir fékk að taka spyrnuna eftir að hafa klúðrað fjölda góðra færa í dag, en hún spyrnti boltanum framhjá. Greinilega ekki besti dagur þessarar skemmtilegu knattspyrnukonu.

18:48 Nú er fyrri hálfleik lokið og staðan lofar góðu, sérstaklega í ljósi þess að franska liðið Juvisy, sem fyrir fram var talið að væri sterkasta liðið í riðlinum, vann Targu 5:1 þegar liðin mættust á fimmtudaginn. Rúmenarnir hafa reyndar fengið eitt eða tvö mjög góð færi en ekki nýtt þau. Blikar hafa að sama skapi fengið urmul góðra færa fyrir utan þau sem gáfu mörkin.

18:37 MARK! Greta Mjöll komst upp að endamörkum vinstra megin og sendi boltann út í vítateiginn þar sem Harpa Þorsteinsdóttir var mætt og skoraði með ágætu skoti. Hvert mark gæti reynst dýrmætt í þessum leik og því gaman að sjá Blika í þessum ham. Liðið gæti hæglega verið búið að skora fleiri mörk.

18:18 Berglind Björg Þorvaldsdóttir var að koma boltanum í markið en það var dæmt af vegna rangstöðu. Þarna munaði litlu.

18:15 MARK! Sara Björk Gunnarsdóttir fékk boltann inn fyrir vörn Targu og lék á markvörðinn áður en hún skoraði úr þröngu færi í tómt markið.

18:10 Blikar unnu sem kunnugt er Levadia Tallinn frá Eistlandi í fyrstu umferð en Targu tapaði fyrir Juvisy frá Frakklandi.  Juvisy vann svo 12:0 sigur á Levadia fyrr í dag.

18:05 MARK! Blikar komust yfir í leiknum strax á 4. mínútu með hjálp Rúmenanna. Greta Mjöll Samúelsdóttir tók hornspyrnu frá hægri og boltinn barst inní miðjan vítateiginn þar sem leikmaður gestanna sparkaði honum óvart í eigið mark.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert