Íslenska U21-landslið karla í knattspyrnu tók það þýska hreinlega í bakaríið í leik liðanna í undankeppni Evrópumeistaramóts landsliða í knattspyrnu á Kaplakrikavelli í dag. Ísland vann 4:1 sigur og á þar með enn góða möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Ísland er áfram í 2. sæti undanriðilsins en nú með 16 stig og hefur tryggt sér það sæti. Tékkar, sem unnu San Marínó 5:0 í dag, eru efstir með 18 stig. Ísland á eftir að leika við Tékkland á útivelli í lokaleik sínum, en Tékkland og Þýskaland eiga einnig eftir að mætast í Tékklandi.
Efsta liðið í hverjum undanriðli, og þau fjögur með bestan árangur sem verða í 2. sæti, komast í umspil um sjö laus sæti í úrslitakeppninni þar sem Danir leika sem gestgjafar. Ísland á því möguleika á að komast í umspil þó liðið verði í 2. sæti.
Lið Íslands: Markvörður: Haraldur Björnsson. Varnarmenn: Kristinn Jónsson, Jón Guðni Fjóluson, Hólmar Örn Eyjólfson, Skúli Jón Friðgeirsson. Miðja: Birkir Bjarnason, Eggert Gunnþór Jónsson, Gylfi Sigurðsson, Bjarni Þór Viðarsson og Jóhann Berg Guðmundsson. Sókn: Kolbeinn Sigþórsson.
Lið Þýskalands: Tobias Sippel. Stefan Reinartz, Benedikt Höwedes, Dennis Diekmeier, Julian Schieber, Timo Gebhart, Mats Hummels, Philipp Bargfrede, Marcel Schmelzer, Lars Bender, Kevin Grosskreutz.