Litlar breytingar á leikmannahópi Frakka

Margrét Lára Viðarsdóttir í leiknum gegn Frökkum á EM í …
Margrét Lára Viðarsdóttir í leiknum gegn Frökkum á EM í Finnlandi. mbl.is/Golli

Lið Frakklands sem leikur á Laugardalsvellinum klukkan 16 í dag í undankeppni HM er svipað og verið hefur undanfarin ár að sögn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar landsliðsþjálfara Íslands.

Ísland og Frakkland hafa mæst nokkrum sinnum á umliðnum árum. Liðin voru saman í undankeppni EM og þá sigraði Ísland 1:0 á Laugardalsvellinum 2007 með marki Margrétar Láru Viðarsdóttur. Frakkland sigraði 2:1 í spennandi leik ytra 2008 og skoraði Katrín Jónsdóttir mark Íslands . Liðin voru einnig saman í riðli í lokakeppni EM í Finnlandi og þá sigraði Frakkland 3:1 eftir að Ísland komst yfir 1:0 með marki Hólmfríðar Magnúsdóttur. Í fyrra mættust liðin í fyrri leiknum í undankeppni HM ytra og þá sigraði Frakkland 2:0.

„Franska liðið er í raun og veru mjög svipað og verið hefur undanfarin ár. Þær eru náttúrlega feykisterkar og halda boltanum vel innan liðsins. Leikirnir á móti þeim hafa þróast þannig að þær hafa verið meira með boltann en samt sem áður hafa þetta verið jafnir leikir. Fyrir utan það þegar við spiluðum við þær í Frakklandi síðast. Þá voru þær með töluvert mikla yfirburði á móti okkur en vonandi stöndum við okkur betur núna,“ sagði Sigurður Ragnar þegar Mbl.is ræddi við hann á landsliðsæfingu á fimmtudaginn.

Franski hópurinn.

Fylgst verður með leiknum við Frakka í beinni textalýsingu á Mbl.is í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert