Rúrik: „Erum staðráðnir í að gera betur“

Rúrik Gíslason
Rúrik Gíslason mbl.is/Ómar

Rúrik Gíslason hefur stimplað sig inn sem byrjunarliðsmaður í landsliðinu. Hann lék gegn Norðmönnum á Laugardalsvellinum fyrir ári síðan og telur Ísland eiga jafna möguleika gegn þeim þegar liðin mætast í undankeppni Evrópumóts karlalandsliða á föstudag á Laugardalsvelli.

„Ég tel þetta vera algert 50/50 dæmi. Ég hef á tilfinningunni að þetta muni ráðast mikið af því hvernig menn eru stemmdir í þessum leik og hvernig dagsformið verður. Við höfum sýnt það áður að við getum spilað vel á móti Norðmönnum. Við förum að sjálfsögðu með fullt sjálfstraust í leikinn og eigum að geta náð góðum úrslitum á móti þeim. Eins fáránlegt og það nú er þá hefur til dæmis gengið betur á móti Norðmönnum heldur en Lichtenstein. Við þurfum að leggja okkur alla fram og gera mun betur en við gerðum á móti Lichtenstein á dögunum. Við erum ekki búnir að gleyma því og erum staðráðnir í að gera betur,“ sagði Rúrik og gat ekki neitað því að hann finnur fyrir meiri stemningu þegar ný keppni er að hefjast.

„Það er engin spurning. Það byrja allir á núlli og við trúum á okkur sjálfa. Strákarnir úr 21 árs liðinu eru komnir inn í liðið með fullt sjálfstraust og það eru spennandi tímar framundan,“ sagði Rúrik og Gylfi Þór Sigurðsson tók í sama streng.

Það væri mjög flott að ná stigum út úr báðum þessum leikjum

„Ég hef lítið verið að hugsa um landsliðið undanfarið en fer nú að einbeita mér að þessu. Það er ný keppni að byrja og tveir erfiðir leikir framundan. Eins og ég hef áður sagt þá þurfum við að gera góða hluti á heimavelli ef við ætlum að standa okkur í þessari keppni. Það væri mjög flott að ná stigum út úr báðum þessum leikjum. Ég er að sjálfsögðu ánægður með kynslóðaskiptin og við erum nokkrir í þessum hóp sem höfum spilað lengi saman eins og Jóhann Berg Guðmundsson, Rúrik Gíslason og Kolbeinn Sigþórsson. Eggert Gunnþór Jónsson og Birkir Bjarnason raunar líka. Það er margir ungir strákar í hópnum og það er bara mjög jákvætt. Ef þessi keppni verður ekki sterk hjá okkur þá verður næsta keppni það örugglega,“ sagði Gylfi við Morgunblaðið.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert