Gunnleifur: Hangeland er bara skrímsli

Brede Hangeland skorar hér markið gegn Íslendingum í gær á …
Brede Hangeland skorar hér markið gegn Íslendingum í gær á Laugardalsvelli. Eggert Jóhannesson

Gunnleifur Gunnleifsson stóð í marki Íslands í 1:2 tapleiknum gegn Noregi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld. Gunnleifur vill meina að á sér hafi verið brotið þegar Norðmenn jöfnuðu leikinn.

„Stundum hefði verið dæmt brot á svona atvik og stundum ekki. Það er náttúrlega erfitt að eiga við Hangeland, hann er bara skrímsli. Ég komst bara ekki upp í loftið og ég veit ekki hvað ég gat gert betur í stöðunni,“ sagði Gunnleifur um jöfnunarmark Norðmanna sem Hangeland skoraði með skalla.

Gunnleifur sagði Íslendinga hafa gefið of mikið eftir í síðari hálfleik. „Já ég er sammála því. Við vorum virkilega þéttir og grimmir í fyrri hálfleik. Við vörðum forskotið nokkuð vel í lok fyrri hálfleiks og hefðum kannski átt að ná að refsa þeim með öðru marki því þeir lágu vel við höggi. Í síðari hálfleik þá duttum við of langt frá leikmönnum Noregs og buðum kannski upp á þetta. Leikur okkar var eins og svart og hvítt í fyrri og seinni hálfleik að mínu mati. Norðmennirnir keyrðu að sama skapi upp hraðann hjá sér í seinni hálfleik en ég er mjög súr yfir þessum úrslitum,“ sagði Gunnleifur við Mbl.is að leiknum loknum.

Ítarleg umfjöllun um landsleik Íslands og Noregs er í fjögurra síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert