Olsen: „Íslendingarnir betri en ég átti von á“

Norska landsliðið sem mætti Íslendingum í gær.
Norska landsliðið sem mætti Íslendingum í gær. mbl.is/Golli

„ Ég var gríðarlega ósáttur við fyrri hálfleikinn hjá okkur og ég þurfti að klípa mig í handlegginn af og til því ég trúði varla því sem ég sá. Íslendingarnir voru betri en ég átti von á,“ sagði Egil „Drillo“ Olsen þjálfari Norðmanna eftir 2:1 sigur liðsins í gær á Laugardalsvelli í undankeppni EM karla í fótbolta.   

„Ég var mjög spenntur og taugaóstyrkur fyrir leikinn. Það skiptir gríðarlegu máli upp á framhaldið að ná góðum úrslitum í fyrsta leik í undankeppni stórmóts. Ef við hefðum tapað gætu möguleikar okkar jafnvel verið úr sögunni, það má ekkert bregða útaf. “

Olsen, sem er 68 ára gamall, hefur gengið í gegnum ýmislegt á löngum þjálfaraferli en hann var eins og áður segir mjög ósáttur við leik norska liðsins í fyrri hálfleik. „Í hálfleik sagði ég mína meiningu án þess að þurfa að brýna röddina, þeir skildu það sem ég sagði. Brede Hangeland fyrirliði sagði hinsvegar hlutina með öðrum hætti, hann var virkilega reiður í hálfleik og hann öskraði í búningsklefanum,“ sagði Olsen á fundi með fréttamönnum í gær.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert