Árni Gautur verður í hópnum

Íslensku markverðirnir á æfingu ásamt Bjarna Sigurðssyni markvarðaþjálfara landsliðsins.
Íslensku markverðirnir á æfingu ásamt Bjarna Sigurðssyni markvarðaþjálfara landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Gautur Arason markvörður hefur jafnað sig að fullu af meiðslum og verður í leikmannahópi íslenska landsliðsins í knattspyrnu í kvöld þegar það mætir Dönum á Parken í undankeppni EM.

Árni var ekki leikfær fyrir leikinn gegn Noregi á föstudagskvöldið en var prófaður rækilega á æfingu liðsins á Parken í gærkvöld. Þar kom á daginn að Árni gæti sparkað út af krafti, og þar með er ekkert því til fyrirstöðu að hann sé í 18 manna hópnum í kvöld, í staðinn fyrir Ingvar Þór Kale sem var varamarkvörður gegn Noregi.

Birkir Már Sævarsson verður einnig í 18 manna hópnum í stað Grétars Rafns Steinssonar, sem er meiddur, en ásamt Ingvari verða það Bjarni Ólafur Eiríksson, Matthías Vilhjálmsson og Baldur Sigurðsson sem ekki verða á bekknum í kvöld.

Byrjunarlið Íslands verður tilkynnt eftir tvo tíma eða svo en leikurinn á Parken hefst klukkan 18.15 að íslenskum tíma.

Morgunblaðið birti líklegt byrjunarlið í morgun og það er þannig skipað:

Gunnleifur Gunnleifsson
Arnór Sveinn Aðalsteinsson
Kristján Örn Sigurðsson
Sölvi Geir Ottesen
Indriði Sigurðsson
Aron Einar Gunnarsson
Gylfi Þór Sigurðsson
Eggert Gunnþór Jónsson
Rúrik Gíslason
Heiðar Helguson
Jóhann Berg Guðmundsson

Varamenn eru þá Árni Gautur Arason, Veigar Páll Gunnarsson, Ragnar Sigurðsson, Ólafur Ingi Skúlason, Birkir Bjarnason, Kolbeinn Sigþórsson og Birkir Már Sævarsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert