Ísland í umspilið í EM U21 árs liða

Eyjólfur Sverrisson er þjálfari 21-árs landsliðsins.
Eyjólfur Sverrisson er þjálfari 21-árs landsliðsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

21-árs landslið Íslands í knattspyrnu er komið í umspil Evrópukeppninnar þrátt fyrir ósigurinn gegn Tékkum í dag. Samkvæmt útreikningum mbl.is er Ísland eitt fjögurra liða með bestan árangur í 2. sæti riðlakeppninnar.

Þetta er birt með fyrirvara um rétta útreikninga en nýbúið er að flauta til leiksloka í öllum leikjum dagsins. Sigurvegarar í riðlunum tíu eru komnir áfram ásamt fjórum bestu liðum í 2. sæti.

Staða liðanna í 2. sæti er þessi:

Spánn 19 stig, markatala 15:5
England 17 stig, markatala 13:7
Hvíta-Rússland 17 stig, markatala 15:10
Ísland 16 stig, markatala 29:11

Ísrael 16 stig, markatala 18:8
Wales 16 stig, markatala 15:6
Rússland 16 stig, markatala 14:6
Frakkland 15 stig, markatala 10:4
Slóvakía 14 stig, markatala 11:11
Tyrkland 13 stig, markatala 10:10

Í tveimur riðlanna voru sex lið og þar strikuðust út úrslit gegn neðsta liðinu. Rússar fengu t.d. 22 stig en sex stig gegn Andorra strikuðust út hjá þeim í samanburðinum við önnur lið í 2. sæti.

Mesta hættan var að Rússar og Slóvakar kæmust uppfyrir Ísland í lokaumferðinni í dag. Rússar urðu að gera sér að góðu 0:0 jafntefli við Rúmena á heimavelli og Slóvakar steinlágu heima gegn Norðmönnum, 1:4. Það má því segja að Rúmenar og Norðmenn hafi hjálpað íslenska liðinu yfir marklínuna í dag.

Auk þessara fjögurra liða í 2. sæti, Spánar, Englands, Hvíta-Rússlands og Íslands, fara sigurvegararnir tíu í umspilið. Það eru Rúmenía, Sviss, Ítalía, Holland, Tékkland, Svíþjóð, Króatía, Úkraína, Grikkland og Skotland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert