Sørensen úr leik hjá Dönum

Thomas Sørensen leikur ekki í marki Dana gegn Íslendingum í …
Thomas Sørensen leikur ekki í marki Dana gegn Íslendingum í kvöld. DARREN STAPLES

Hinn reyndi danski markvörður, Thomas Sørensen, hefur orðið að draga sig út úr landsliðinu sem mætir Íslendingum á Parken í kvöld í undankeppni EM í knattspyrnu. Sørensen, sem átt hefur í meiðslum í olnboga um tíma, er reyndasti markvörður Dana um þessar mundir en hann á að baki 90 landsleiki. Hans sæti í byrjunarliðinu tekur  Anders Lindegaard.

Lindegaard er markvörður norska úrvalsdeildarliðsins Aalesund. Hann var þriðji markvörður í hópi Morten Olsen, landsliðsþjálfara Dana, en áður hafði varamarkvörður landsliðsins um nokkurt skeið, Stephan Andersen, neyðst til að draga sig í hlé.

 Jonas Lössl, markvörður FC Midtjyllands, hefur verið kallaður inn í danska landsliðið sem varamarkvörður fyrir átökin á Parken.

Sørensen er aðalmarkvörður Stoke City og samherji Eiðs Smára Guðjohnsen á Englandi.  Hann meiddist í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar í sumar og hefur ekki jafnað sig síðan. Sørensen segir í samtali við Politiken olnbogameiðslin hafa versnað á æfingu síðdegis í gær og hann treysti sér þar af leiðandi ekki til þess að taka þátt í landsleiknum við Íslendinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert