Færeyska knattspyrnufélagið HB frá Þórshöfn hefur sagt Kristjáni Guðmundssyni upp störfum en aðeins tæpt ár er síðan félagið réð hann til sín.
Kristján staðfesti þetta við vef færeyska dagblaðsins Dimmalætting í dag og kveðst þar afar vonsvikinn yfir þessari skipan mála.
HB er í öðru sæti færeysku meistaradeildarinnar, eins og efsta deildin heitir í eyjunum, en liðið tapaði illa í gær á heimavelli, 1:4, gegn næstneðsta liðinu, FC Suðuroy.
Þegar sex umferðum er ólokið er NSÍ Runavík með 40 stig á toppnum og er að spila þessa stundina leik sem liðið á til góða á HB sem er með 38 stig. EB/Streymur er í þriðja sætinu með 37 stig. Í bikarkeppninni náði HB ekki að komast í átta liða úrslitin.
Kristján þjálfaði Keflvíkinga í fimm ár en hætti þar eftir síðasta tímabil og var í kjölfarið ráðinn til starfa hjá HB, sem varð færeyskur meistari á síðasta ári. Undir hans stjórn vann HB mjög óvæntan sigur á austurrísku meisturunum Salzburg, 1:0, í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í júlí en liðið hafði reyndar tapað 0:5 í fyrri leiknum í Austurríki.
Einn íslenskur leikmaður spilar með HB, Þórður Steinar Hreiðarsson, fyrrum miðvörður Þróttar, en hann hefur leikið alla leiki liðsins í deildinni í ár, 21 talsins, og skorað 3 mörk.