Kristján rekinn frá HB í Þórshöfn

Kristján Guðmundsson er ekki lengur við stjórnvölinn hjá HB.
Kristján Guðmundsson er ekki lengur við stjórnvölinn hjá HB. mbl.is/Árni Sæberg

Færeyska knattspyrnufélagið HB frá Þórshöfn hefur sagt Kristjáni Guðmundssyni upp störfum en aðeins tæpt ár er síðan félagið réð hann til sín.

Kristján staðfesti þetta við vef færeyska dagblaðsins Dimmalætting í dag og kveðst þar afar vonsvikinn yfir þessari skipan mála.

HB er í öðru sæti færeysku meistaradeildarinnar, eins og efsta deildin heitir í eyjunum, en liðið tapaði illa í gær á heimavelli, 1:4, gegn næstneðsta liðinu, FC Suðuroy.

Þegar sex umferðum er ólokið er NSÍ Runavík með 40 stig á toppnum og er að spila þessa stundina leik sem liðið á til góða á HB sem er með 38 stig. EB/Streymur er í þriðja sætinu með 37 stig. Í bikarkeppninni náði HB ekki að komast í átta liða úrslitin.

Kristján þjálfaði Keflvíkinga í fimm ár en hætti þar eftir síðasta tímabil og var í kjölfarið ráðinn til starfa hjá HB, sem varð færeyskur meistari á síðasta ári. Undir hans stjórn vann HB mjög óvæntan sigur á austurrísku meisturunum Salzburg, 1:0, í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í júlí en liðið hafði reyndar tapað 0:5 í fyrri leiknum í Austurríki. 

Einn íslenskur leikmaður spilar með HB, Þórður Steinar Hreiðarsson, fyrrum miðvörður Þróttar, en hann hefur leikið alla leiki liðsins í deildinni í ár, 21 talsins, og skorað 3 mörk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert