Fram kemur á vef KA í dag að Englendingurinn Dean Martin hafi óskað eftir því að láta af störfum en hann hefur þjálfað Akureyrarliðið síðustu þrjú árin og átti samningur hans að renna út í næsta mánuði.
Á heimasíðu KA kemur fram; ,,Dean Martin hefur í það heila spilað vel á þriðja hundrað leiki fyrir KA, en fyrst kom hann til félagsins sem leikmaður árið 1995 og spilaði þá til ársins 2003. Hann kom síðan aftur til félagsins sem þjálfari og leikmaður árið 2008.
KA hafnaði í níunda sæti í 1. deildinni sem lauk á laugardaginn og tók Martin þátt í 18 leikjum liðsins af 22 í deildinni.
Guðjón Þórðarson hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá KA en hann gerði liðið að Íslandsmeisturum með eftirminnilegum hætti árið 1989.