Stúlkurnar í U17 ára landsliði Íslands í knattspyrnu unnu í dag risasigur á Litháen, 14:0, í undankeppni Evrópumótsins en þær leika í riðli sem fram fer í Búlgaríu í þessari viku. Staðan var 7:0 í hálfleik.
Guðmunda Brynja Ólafsdóttir og Aldís Kara Lúðvíksdóttir skoruðu þrjú mörk hvor, Telma Þrastardóttir og Glódís Perla Viggósdóttir tvö mörk hvor, og þær Hildur Antonsdóttir, Rakel Ýr Einarsdóttir, Hugrún Elvarsdóttir og Elín Metta Jensen gerðu sitt markið hver.
Ítalía vann Búlgaríu, 4:0, í sama riðli en íslensku stúlkurnar leika við þær búlgörsku á miðvikudaginn og við Ítalíu á laugardaginn.