Stuðningsmenn Bröndby vilja losna við Stefán

Stefán Gíslason.
Stefán Gíslason. mbl.is/Ómar

Það gengur mikið á hjá danska fótboltaliðinu Bröndby og stór hluti stuðningsmanna liðsins vill losna við leikmenn sem fá himinhá laun frá félaginu án þess að taka þátt í leikjum liðsins. Íslenski miðjumaðurinn Stefán Gíslason er í þeirri stöðu að fá ekki tækifæri hjá Bröndby en hann hefur ekki leikið deildarleik frá því í byrjun desember í fyrra.

Liðinu hefur gengið illa í undanförnum leikjum og hafa stuðningsmenn liðsins látið óánægju sína í ljós.  Á sunnudaginn tapaði Bröndby 2:0 á heimavelli gegn botnliði Silkeborg og í síðustu viku féll liðið úr bikarkeppninni gegn neðrideildarliðinu Varde.

Stefán fær samkvæmt frétt danska dagblaðsins Ekstrabladet um 4,2 milljónir kr. í laun á mánuði eða 50 milljónir kr. í árslaun. 

Samningur Stefáns rennur út árið 2012 en hann lék sem lánsmaður hjá norska liðinu Viking á þessu ári. Stuðningsmenn Bröndby vilja að félagið losi sig við dýrustu leikmenn liðsins í janúar þegar leikmannaglugginn opnast í Evrópu.  

„Það er erfitt að komast í liðið, ég er ekki í góðri leikæfingu núna en ég verð að bíða og sjá til hvað gerist. Ég vil gjarnan fá tækifæri,“  segir Stefán í viðtali við sporten.dk

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert