Sigurganga Norðmanna heldur áfram

Frá viðureign Norðmanna og Kýpurbúa í kvöld.
Frá viðureign Norðmanna og Kýpurbúa í kvöld. Reuters

Norðmenn héldu sigurgöngu sinni áfram í undankeppni Evrópumóts landsliða í knattspyrnu í kvöld. Norðmenn sóttu Kýpurbúa heim og fóru með sigur af hólmi, 2:1.

John Arne Riise kom Norðmönnum yfir strax á 2. mínútu leiksins með þrumufleyg og John Carew bætti við öðru marki á 42. mínútu. Ioannis Okkas minnkaði muninn fyrir heimamenn á 58. mínútu en nær komust þeir ekki þrátt fyrir harða pressu á mark norska liðsins á lokakafla leiksins.

Norðmenn hafa þar með unnið alla þrjá leiki sína í riðlinum, Íslendinga 2:1, Portúgala 2:1 og nú Kýpurbúa, og þeir tróna á toppnum með 9 stig. Kýpur hefur 1 stig eftir tvo leiki.

Leikur Portúgala og Dana er nýhafinn í Portúgal en Portúgalar koma til Íslands á sunnudaginn og mæta Íslendingum á þriðjudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert