„Það er fínt að vera kominn aftur inn í hópinn. Það var óvissuástand hjá mér í sumar en gott að vera núna kominn með sín mál á hreint og vera kominn af stað aftur,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen við Morgunblaðið fyrir fyrstu æfingu A-landsliðsins í undirbúningi þess fyrir stórleikinn gegn Portúgölum í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer á Laugardalsvellinum á þriðjudag.
Eiður var ekki valinn í leikmannahópinn fyrir leikina gegn Norðmönnum og Dönum en á þeim tímapunkti var hann á milli liða en er nú samningsbundinn enska úrvalsdeildarliðinu Stoke City.
Nú ert þú búinn að æfa með Stoke í rúman einn mánuð. Ert þú ekki að komast í ágætt form?
„Ég er bara í nokkuð góðu standi. Ég hefði viljað vera búinn að spila einn til tvo heila leiki en þeir koma,“ sagði Eiður, sem lék síðast með landsliðinu vináttuleik gegn Liechtenstein um miðjan ágústmánuð. Hann hefur komið við sögu í tveimur leikjum með Stoke frá því hann gekk í raðir félagsins í byrjun september en í báðum leikjunum kom hann inn á sem varamaður.
Hvernig líst þér á þetta verkefni gegn Portúgal?
„Við erum að mæta einni sterkustu knattspyrnuþjóð heims sem hefur í sínum röðum frábæra knattspyrnumenn. Án þess að hafa séð leiki okkar á móti Noregi og Danmörku finnst mér súrt að við skulum ekki vera með stig. Það er gaman að fólk er spennt fyrir leiknum og það er eðlilegt því hingað er að koma væntanlega einn besti knattspyrnumaður heims í dag. Þá er ég tala um mig,“ sagði Eiður og rak upp hlátur á KR-vellinum þar sem landsliðið æfði í gær.
Viðtalið við Eið Smára í heild sinni er að finna í fjögurra síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.