Tap í Tel Aviv þrátt fyrir góðan lokakafla

Hermann Hreiðarsson er fyrirliði Íslands í dag og leikur sinn …
Hermann Hreiðarsson er fyrirliði Íslands í dag og leikur sinn 86. landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vináttulandsleikur Íslands og Ísrael í knattspyrnu karla hófst kl 17:35 í Tel Aviv. Ísrael komst í 3:0 eftir aðeins 27 mínútna leik en Ísland svaraði með tveimur mörkum frá Alfreði Finnbogasyni og Kolbeini Sigþórssyni á lokakaflanum. Það dugði ekki til og Ísrael sigraði 3:2. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. mín: LEIK LOKIÐ. Ísrael sigraði 3:2 en Íslendingar björguðu andlitinu með því að vinna síðari hálfleikinn 2:0.

84. mín: Mark!! Íslendingum hefur tekist að hleypa spennu í leikinn. Steinþór Þorsteinsson fékk stungusendingu inn fyrir vörn Ísraels frá Alfreð Finnbogasyni og renndi boltanum til hliðar á Kolbein Sigþórsson sem skoraði af öryggi.

78. mín: Mark!! Alfreð Finnbogason er búinn að minnka muninn fyrir Ísland með föstu skoti rétt utan vítateigs.  Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Matthías Vilhjálmsson eru komnir inn á í stað þeirra Indriða Sigurðssonar og Birkis Bjarnasonar.

71. mín: Markmannsskipting hjá íslenska liðinu. Stefán Logi Magnússon fær að spreyta sig og Gunnleifur Gunnleifsson fer af leikvelli.

60. mín: Eftir liðlega klukkutíma leik er staðan óbreytt. Engin almennileg færi hafa litið dagsins ljós í síðari hálfleik.  Jón Guðni Fjóluson er kominn inn á í staðinn fyrir Kristján Örn Sigurðsson.

46. mín: Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari gerir eina breytingu á liðinu í upphafi síðari hálfleiks. Hermann Hreiðarsson er farinn af velli og Ólafur Ingi Skúlason kom inn á í hans stað og tók við fyrirliðabandinu. Eggert Gunnþór Jónsson fer þá líklega í miðvörðinn og Ólafur á miðjuna.

45. mín: Fyrri hálfleik er lokið og staðan er 3:0 fyrir Ísrael. Birkir Bjarnason fékk aftur gott færi á 43. mínútu en aftur fór skot hans yfir markið.

42. mín: Kolbeinn Sigþórsson komst einn á móti markmanni en sá ísraelski varði skot hans með fótunum en færið var nokkuð þröngt.

33. mín: Besta færi Íslands hingað til í leiknum átti Birkir Bjarnason rétt í þessu. Eftir skalla frá Hermanni Hreiðarssyni fékk Birkir mjög gott færi en skaut hátt yfir markið. 

27. mín: Mark!! Ísraelsmönnum gengur allt í haginn og þeir eru komnir í 3:0 og ekki liðinn hálftími af leiknum. Markið skoraði Lior Rafaelov með innanfótarskoti úr vítateignum miðjum. 

14. mín: Mark!! Eftir slæm varnarmistök fyrirliðans Hermanns Hreiðarssonar, bættu Ísraelar við öðru marki rétt utan vítateigs. Skelfileg byrjun hjá íslenska liðinu og aftur var sóknarmaðurinn Omer Damari á ferðinni.

5. mín: Mark!! Ísrael var ekki lengi að ná frumkvæðinu og skoruðu úr fyrsta færi sínu í leiknum.  Indriði Sigurðsson tapaði boltanum og Ísraelar refsuðu og staðan því orðin 1:0. Omer Damari fékk boltann og skoraði með góðu skoti frá vítateigslínu.

Lið Íslands:

Markvörður: Gunnleifur Gunnleifsson

Hægri bakvörður: Birkir Már Sævarsson

Vinstri bakvörður: Indriði Sigurðsson

Miðverðir: Hermann Hreiðarsson, fyrirliði, Kristján Örn Sigurðsson

Tengiliðir: Eggert Gunnþór Jónsson, Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Finnbogason

Hægri kantur: Birkir Bjarnason

Vinstri kantur: Steinþór Freyr Þorsteinsson

Framherji: Kolbeinn Sigþórsson

Varamenn: Stefán Logi Magnússon, Jón Guðni Fjóluson, Matthías Vilhjálmsson, Ólafur Ingi Skúlason, Arnór Sveinn Aðalsteinsson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert