Mourinho: Þetta er enginn úrslitaleikur

Cristiano Ronaldo og José Mourinho verða í sviðsljósinu á Camp …
Cristiano Ronaldo og José Mourinho verða í sviðsljósinu á Camp Nou í kvöld. Reuters

José Mourinho, knattspyrnustjóri Real Madrid, segir að slagurinn við Barcelona á Camp Nou í kvöld sé vissulega stórleikur, en enginn sérstakur úrslitaleikur. Bara einn af mörgum mikilvægum.

Liðin mætast í höfuðstað Katalóníu í kvöld klukkan 20 að íslenskum tíma og almennt er litið á þetta sem fyrri úrslitaleikinn um spænska meistaratitilinn þennan veturinn. Stórveldin tvö eru með yfirburðastöðu í deildinni og litlar líkur virðast á að önnur lið komist nálægt þeim.

„Allir leikir eru mikilvægir, og hvert einasta stig sem tapast getur ráðið úrslitum í lokin, en eftir þessa viðureign verða enn 25 leikir eftir og fullt af stigum í pottinum," sagði Mourinho á fréttamannafundi í gær.

„Þetta er mikilvægur leikur en ekki úrslitaleikur. Ef við vinnum, mun þriðjudagur renna upp morguninn eftir, og ef við töpum, mun þriðjudagur renna upp morguninn eftir. Ég vona bara að þó lið mitt tapi leiknum, missi það ekki sjálfstraust, á sama hátt og að þó lið mitt vinni leikinn, haldi það sér á jörðinni. Ég mun halda ró minni, sama hvernig leikurinn fer," sagði Mourinho.

Margir sérfræðingar hafa spáð því að Mourinho leiki sterkan varnarleik í kvöld og Pep Guardiola knattspyrnustjóri Barcelona hefur gefið í skyn að hann eigi von á því að sitt lið verði með boltann megnið af leiknum en Real spili svipað og Inter gerði undir stjórn Mourinhos.

Portúgalinn vildi þó ekki taka undir það að menn ættu von á stífum varnarleik sinna manna.

„Heimsbyggðin bíður eftir þessum leik og það er okkar skylda að færa heimsbyggðinni þann leik sem hún  vonast eftir. Þetta gætu verið tvö bestu lið heims, með frábæra leikmenn og allt til staðar til að þetta verði flottur leikur. Ég vona að leikmenn styðji við dómarann og þetta verði leikur sem bara verði rætt um á jákvæðum nótum og fyrir  fallega hluti," sagði Mourinho.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert