Stórsigur Barcelona í El Clásico

Xavi sést hér skora markið sem kom Barcelona í 1:0.
Xavi sést hér skora markið sem kom Barcelona í 1:0. Reuters

Barcelona niðurlægði hreinlega erkifjendur sína í Real Madrid þegar liðin mættust á Camp Nou í kvöld í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu. Heimamenn unnu 5:0 sigur og yfirspiluðu gestina gjörsamlega. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

David Villa skoraði tvö mörk í sínum fyrsta El Clásico og þeir Xavi, Pedro og Jeffrén gerðu sitt markið hver. Barcelona komst með sigrinum á topp deildarinnar og er með tveggja stiga forskot á Real Madrid.

90. Sergio Ramos misst stjórn á sér í uppbótartíma og sparkaði Lionel Messi niður. Áður en dómarinn náði að sýna honum rauða spjaldið hrinti hann svo samherja sínum úr spænska landsliðinu, Carles Puyol, í grasið. Það er ekki hægt að segja að Madridingar séu að tapa með sæmd.

90. Það þykir saga til næsta bæjar að lærisveinar Jose Mourinho tapi með fimm mörkum, en varamaðurinn Jeffrén var að bæta við fimmta markinu með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá hægri.

58. Það liðu aðeins um tvær mínútur frá því að David Villa skoraði þriðja markið áður en hann bætti því fjórða við og kom Barcelona í 4:0. Það má greina bæði örvæntingu og vanlíðan í andlitum Madridinga. Aftur skoraði Villa eftir stungusendingu frá Messi.

55. Markamaskínan David Villa skoraði þriðja mark Barcelona eftir stungusendingu frá Messi inn í vítateiginn. Þar með hefur Villa skorað í sínum fyrsta El Clásico.

52. Xavi komst í frábært færi eftir stungusendingu frá Messi en boltinn fór í varnarmann. Þaðan rúllaði knötturinn hægra megin við Casillas svo Xavi var kominn í enn betra færi en skaut í hliðarnetið, enda ekki í góðu jafnvægi.

45. Hálfleikur. Forysta heimamanna er verðskulduð en gestunum frá Madrid óx ásmegin eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Það má því reikna með að þeir hafi ekki sagt sitt síðasta en staðan er 2:0, Barcelona í vil.

35. Ronaldo átti mjög góða aukaspyrnu nokkrum metrum utan vítateigs en boltinn straukst við varnarmann og fór rétt framhjá markinu.

18. Byrjunin hjá Barcelona í leiknum hefur verið hreint ótrúlegt. Það er ekki að sjá að liðin séu í sama gæðaflokki. Eftir góða sókn átti David Villa sendingu vinstra megin úr teignum á Pedro sem skoraði af stuttu færi og kom heimamönnum í 2:0. Leikmenn Barcelona léku boltanum 21 sinni á milli sín áður en markið kom! 

10. Barcelona komst yfir, 1:0, með marki frá Xavi. Andrés Iniesta laumaði boltanum inn í vítateiginn á Xavi sem skoraði ansi laglega eftir að Marcelo hafði náð að snerta boltann og verið nálægt því að stöðva sóknina. 

6. Börsungar byrjuðu leikinn betur og Lionel Messi átti skemmtilega marktilraun, sem átti kannski að vera fyrirgjöf, þegar hann vippaði boltanum yfir Casillas hægra megin úr vítateignum en boltinn fór ofarlega í vinstri markstöngina.

Barcelona: Valdés - Alves, Puyol, Piqué, Abidal, Xavi, Busquets, Iniesta, Pedro, Messi, Villa.

Real Madrid: Casillas - Ramos, Pepe, Carvalho, Marcelo, Khedira, Alonso, D. María, Özil, Ronaldo, Benzema.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert