Sölvi Geir Ottesen og félagar í danska meistaraliðinu FC Köbenhavn eru komnir í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir öruggan sigur á Panathinaikos, 3:1, á Parken í kvöld. Manchester United, Tottenham og Schalke tryggðu sér sigur í sínum riðlum keppninnar.
Sölvi Geir lék síðustu 15 mínúturnar með FC Köbenhavn sem var með leikinn í höndum sér því Grikkirnir náðu ekki að svara fyrir sig fyrr en í uppbótartíma.
Það er þá endanlega ljóst að Tottenham, Schalke, Manchester United og Barcelona verða í efri styrkleikaflokkinum fyrir dráttinn í 16-liða úrslitin en Inter Mílanó, Lyon, Valencia og FC Köbenhavn verða í neðri styrkleikaflokknum.
Twente, Benfica, Rangers og Rubin Kazan urðu í þriðja sæti riðlanna og fara í 32ja liða úrslit Evrópudeildar UEFA eftir áramótin.
Werder Bremen, Hapoel Tel Aviv, Bursaspor og Panathinaikos hafa lokið keppni.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
D-riðill:
FC Köbenhavn - Panathinaikos, 3:1 - leik lokið
Barcelona - Rubin Kazan, 2:0 - leik lokið
Lokastaðan: Barcelona 14, FCK 10, Rubin Kazan 6, Panathinaikos 2.
90. Grískt mark í lokin breytir engu, 3:1, en FCK er komið áfram.
82. Vazquez skorar annað mark Barcelona gegn Rússunum í Rubin, 2:0.
77. Sölvi Geir Ottesen er kominn inná hjá FCK og getur því tekið virkan þátt í fagnaðarlátunum í leikslok!
73. Sölvi og félagar í FCK geta farið að fagna sæti í 16-liða úrslitunum. Staðan er orðin 3:0 á Parken eftir sjálfsmark frá Cissé.
51. Jesper Grönkjær var að koma FC Köbenhavn í 2:0 með marki úr víti og í sama mund komst Barcelona yfir gegn Rubin Kazan þegar Andreu Fontas skoraði. FC Köbenhavn er því á leið í 16 liða úrslit í fyrsta sinn!
26. Martin Vingaard kom FC Köbenhavn í 1:0 með góðu skoti utan teigs. FCK er þar með í mjög góðum málum og á leiðinni í 16-liða úrslit eins og sakir standa.
C-riðill
Manchester United - Valencia, 1:1 - leik lokið
Bursaspor - Rangers, 1:1 - leik lokið
Lokastaðan: Man. Utd 14, Valencia 11, Rangers 6, Bursaspor 1.
63. Anderson jafnar fyrir Man.Utd, 1:1.
32. Pablo Hernández kom Valencia yfir á Old Trafford í kjölfar mistaka hjá Michael Carrick. Eins og staðan er núna endar Valencia í efsta sæti riðilsins vegna betri markatölu.
A-riðill:
Twente - Tottenham, 3:3 - leik lokið
Werder Bremen - Inter, 3:0 - leik lokið
Lokastaðan: Tottenham 11, Inter 10, Twente 6, Werder Bremen 5.
87. Claudio Pizarro kemur Bremen í 3:0 gegn Evrópumeisturum Inter, sem verða að sætta sig við annað sæti riðilsins!
64. Chadli jafnar fyrir Twente, 3:3, beint úr aukaspyrnu.
59. Jermain Defoe var að skora sitt annað mark og koma Tottenham í 3:2. Ekki versnar staða liðsins við það.
55. Twente var að jafna metin aftur gegn Tottenham. Lundúnaliðið er þó áfram í góðum málum á toppi riðilsins.
49. Enn vænkast hagur Tottenham. Werder Bremen var að komast í 2:0 gegn Inter með marki frá Marko Arnautovic.
47. Jermain Defoe kom Tottenham yfir á nýjan leik með laglegu marki eftir sendingu frá Aaron Lennon. Tottenham er þá með 13 stig eins og staðan er núna, og Inter í 2. sæti með 10 stig.
39. Werder Bremen var að komast yfir gegn Inter sem eru afar góðar fréttir fyrir Tottenham. Sebastian Prödl skoraði markið.
21. Twente jafnaði metin gegn Tottenham með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var á Assou Ekotto fyrir að taka boltann með hendi. Denny Landzaat skoraði markið en hann þurfti að spyrna tvisvar.
12. Tottenham komst yfir á 12. mínútu með slysalegu sjálfsmarki heimamanna. Markvörður þeirra, Sander Boschker, á allan heiður að því. Tottenham er þar með í vænlegri stöðu á toppi riðilsins.
B-riðill:
Benfica - Schalke, 1:2 - leik lokið
Lyon - Hapoel Tel Aviv, 2:2 - leik lokið
Lokastaðan: Schalke 13, Lyon 10, Benfica 6, Hapoel Tel Aviv 5.