Dómari segir Ronaldo mesta svindlarann

Cristiano Ronaldo hættir til að falla auðveldlega.
Cristiano Ronaldo hættir til að falla auðveldlega. Reuters

Danski FIFA-dómarinn Claus Bo Larsen dæmdi sinn síðasta leik í Meistaradeild Evrópu í vikunni en hann er orðinn 45 ára gamall. Í hinu danska Ekstrabladet vandar hann Portúgalanum Cristiano Ronaldo ekki kveðjuna en virðist ánægður með knattspyrnustjórann sir Alex Ferguson.

Samkvæmt Ekstrabladet segir Larsen Ronaldo vera mesta svindlarann í evrópskum fótbolta. Larsen dæmdi fyrri leik Manchester United og Arsenal í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra, þegar Ronaldo var enn leikmaður United.

„Hann er alltaf að leita eftir ódýrum aukaspyrnum, sérstaklega á heimavelli. Við ræddum þetta oft í dómaraherberginu fyrir leiki. Við vitum að við eigum ekki að vera með fyrir fram ákveðnar skoðanir en við verðum að vera viðbúnir. Hann er með hreinan skjöld í byrjun hvers leiks. Þegar hann lá í grasinu eftir að hafa látið sig falla til að fá aukaspyrnu, átti hann það til að brosa til mín því hann vissi að ég hafði ekki fallið fyrir bragðinu hans,“ sagði Larsen, sem er ánægðari með Ferguson eins og áður segir.

„Ég átti í góðu sambandi við Ferguson þó að hann hafi alltaf verið að öskra og kalla á dómara. Ég gleymi því aldrei þegar hann kom og bankaði harkalega á hurðina á dómaraherberginu eftir Meistaradeildarleik á Old Trafford. Þá sagði hann bara: „Þetta var besta frammistaða dómara í mörg ár.“ Það var frábært,“ sagði Larsen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert