Lionel Messi, Argentínumaðurinn hjá Barcelona, var rétt í þessu útnefndur knattspyrnumaður ársins 2010 í heiminum af FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, og franska tímaritinu France Football.
Þrír leikmenn Barcelona urðu efstir í kjörinu en tilkynnt hafði verið að Messi, Xavi og Andrés Iniesta væru þeir sem kæmu til greina með að hljóta Gullbolta FIFA 2010.
Það var Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, sem var fenginn til að afhenda verðlaunin í Zurich í kvöld, enda öruggt fyrirfram að hann myndi rétta einhverjum sinna liðsmanna Gullboltann eftirsótta.