„Okkur var hent út í djúpu laugina og út í óvissuna því við vissum ekki hvað við vorum að fara út í,“ sagði Albert Sævarsson markvörður Eyjamanna, sem stóð í markinu í fyrsta landsleik Íslands í innifótbolta sem fram fór gegn Lettum að Ásvöllum í kvöld.
„Við sáum á leiknum sem fór fram fyrr í dag og í okkar leik að við hefðum átt að vinna þennan leik en ég held að reynsluleysið hafi komið okkur í koll, við vinnum samt hina tvo leikina þegar við komum reynslunni ríkari og vitum betur hvað við eigum að gera. Við komum af fjöllum í ýmsum atriðum og erum að skoða hvað við þurfum að gera,“ bætti Albert við en hann var að leika sinn fyrsta landsleik - 37 ára gamall.
„Það er aldrei of seint ef maður er í góðu standi og er að standa við, af hverju ekki?“
Lettar unnu leikinn, 5:4, en Ísland leikur við Grikkland á Ásvöllum klukkan 17 á morgun og við Armena á mánudagskvöldið.